Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:59:56 (2032)

2000-11-21 16:59:56# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er afar merkilegt og þýðingarmikið frv. sem hér er til umræðu. Eins og kom fram hjá flutningsmanni og frummælanda í málinu byggist það fyrst og fremst á sjónarmiðum um neytendavernd og það er engin tilviljun að svo góðar undirtektir hafa verið við þetta þingmannafrv. úr samfélaginu og frá Neytendasamtökunum.

[17:00]

Það sem ég vil vekja athygli á eftir þessa stuttu ræðu hæstv. viðskrh. er að þrátt fyrir allt fannst mér viðskrh. nokkuð vinsamleg í garð þessa máls og þó ráðherrann nefndi það og teldi kannski ekki að það fullnægði að fullu leyti þeim sjónarmiðum sem hún hafði tók hún nokkuð vinsamlega undir málið. Hún taldi að nefndin ætti að skoða það mjög vel og það er nú það sem ég vil hvetja til. Fremur en að örlög þess verði þau að daga uppi í nefnd held ég að væri mikilvægt að reyna að ná samkomulagi um einhverjar þær úrbætur sem þyrfti til þess að hljóta náð fyrir augum þeirra sem um véla þegar ráðist er í það að hleypa þingmannamáli út úr nefndum þingsins.

Eitthvað verður að fara að koma til sem verndar þá sem taka á sig ábyrgð meðan við höldum við það að gangst í ábyrgð fyrir aðrar manneskjur. En fyrst og fremst vil ég benda á að ég túlka orð hæstv. viðskrh. sem vinsamleg og mjög jákvæð.