Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 17:11:43 (2034)

2000-11-21 17:11:43# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. um ábyrgðarmenn sem hefur verið lagt fram nokkrum sinnum áður. Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. er afskaplega mikil notkun á ábyrgðum hér á landi ólíkt því sem er annars staðar. Þessar ábyrgðir hafa leitt af sér mannlega harmleiki. Ég hef kynnst þeim nokkrum, því miður, og það er bæði um að ræða fólk sem hefur skrifað upp á og missir aleiguna og fer jafnvel í gjaldþrot vegna þess að það skrifaði upp á og er þá ekki einu sinni að gjalda fyrir peninga sem það hefur eytt sjálft eða áhættu sem það hefur tekið sjálft, heldur sem einhver annar aðili hafði eytt eða tekið áhættu á. Hins vegar hef ég líka kynnst fólki sem er skuldarar og getur ekki lýst sig gjaldþrota þó það sé í reynd gjaldþrota vegna þess að þá missir öldruð amma íbúðina sína eða afi og ég ætla ekki að lýsa því í hvers konar stöðu svona fólk er sem er með eignir langt undir núlli. Ef einhver er fátækur á Íslandi þá eru það þeir sem lenda í þessari stöðu.

Þessi starfsemi eða þessar afleiðingar ábyrgða á Íslandi eru að mínu mati svartur blettur á fjármálamarkaðnum sem hefur verið meira og minna opinber. Það er kannski skýringin á því af hverju þetta hefur viðgengist og af hverju menn hafa farið þessa leið. Fyrir þann sem skrifar upp á er þetta oft vinargreiði eða hugsunarleysi, það er líka um það að ræða að barnabarnið kemur til afa og ömmu og biður um ábyrgð til að kaupa bíl sem þau ætla að kaupa saman kærustuparið. Ég þekki dæmi þess að það rofnar upp og íbúð gamla fólksins fer á uppboð.

Kerfið gengur sem sagt út á það að tengja saman ábyrgðir fjölda einstaklinga þannig að enginn einn geti lýst sig gjaldþrota án þess að allir hrynji. Þetta er ekki forsvaranlegt, herra forseti.

Þegar maður er kominn með eiginfjárstöðu undir núll, þegar hann á minni eignir en skuldir, þá er hann gjaldþrota og þá á hann að geta lýst sig gjaldþrota en það er ekki hægt í þessu kerfi eins og ég hef lýst.

Alveg sérstaklega kemur þetta illa við fólk þegar það er orðið gamalt eða öryrkjar því þá er ekki lengur möguleiki á því að auka við vinnu og ná þannig stöðunni upp. Þá virðist staðan algjörlega vonlaus. Því hef ég líka kynnst.

Herra forseti. Sá sem veitir lán er eins og allir aðrir þátttakendur í atvinnulífinu með ákveðna siðferðilega ábyrgð á því hvaða áhrif aðgerðir hans í atvinnulífinu hafa. Þetta á við um alla sem eru í atvinnulífinu. Það er ekki síður ábyrgð lánveitenda að lánveitingin sé góð í þeim skilningi að hún gangi upp, þ.e. að sú fjárfesting sem farið er í standist. Á þessu hefur verið stór misbrestur vegna þess að íslenskar lánastofnanir hafa mikið frekar litið til ábyrgðarmannsins en skuldarans þegar meta á gæði útlánanna.

[17:15]

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum hér má að einhverju leyti flokka undir forsjárhyggju. Í fyrsta lagi byggir það á því að upplýsa, sem er alltaf af hinu góða, þ.e. að upplýsa ábyrgðarmanninn um áhrif undirskriftarinnar, um stöðu skuldarans og um kröfuna sjálfa, hvernig hún lítur út, og svo er mjög mikilvægt ákvæði um að upplýsa alla árlega um kröfur sem þeir hafa skrifað upp á. Ég er hræddur um að margur Íslendingurinn verði hissa ef þetta frv. verður að lögum og hann fær alla súpuna um áramót, um allt það sem hann hefur skrifað upp á fyrir 10--20 árum, oft eru þessar ábyrgðir ótímabundnar og jafnvel án upphæða.

En í 9. gr. felst vissulega forsjárhyggja. Það má ganga að íbúð viðkomandi aðila en inn hefur verið bætt ákvæði um að ekki sé hægt að ganga að íbúð hans ef hann hefur ekki haft hag af þeirri lánveitingu sem hann er ábyrgðarmaður fyrir. Þegar búið er að milda þetta svona þá get ég fallist á þetta, að þetta sé það lítil forsjárhyggja, það lítil takmörkun á fjárráðum einstaklingsins að hún sé réttlætanleg vegna þeirra hagsmuna sem standa hinum megin, allra þeirra mannlegu harmleikja sem eru í gangi í þjóðfélaginu en fara hljótt vegna þess að fólk skammast sín yfirleitt fyrir að hafa látið hafa sig að fífli. Menn eru ekki að bera það á torg að þeir séu í ábyrgðum og hafi lent í miklum vandræðum.

Herra forseti. Ég ætla að geta hér um önnur áhrif af þessu frv. ef samþykkt yrði. Útlán banka og annarra til einstaklinga hafa vaxið verulega undanfarin ár og það endurspeglar stórkostlega aukningu erlendra skulda á síðustu 2--3 árum. Á þessu ári er gert ráð fyrir að erlendar skuldir vaxi um 200 þús. kr. á hvern einasta Íslending, þ.e. fyrir fjögurra manna fjölskyldu eru þetta 800 þús. kr. Þó að þetta sé kannski að hluta til vegna erlendra fjárfestinga í álverum og slíku þá hugsa ég erlendar skuldir fjögurra manna fjölskyldunnar vaxi um hálfa milljón. Þetta er eiginlega ekki hægt með því að fólk veðsetji bara eignir sínar. Menn hljóta að veðsetja eignir annarra, með því að fá lánuð veð eða með ábyrgðum, annars væri þetta ekki hægt. Bankakerfið getur lánað svona mikið, þó kannski sé hægt að efast um gæði útlánanna, með því að nota ábyrgðir í síauknum mæli. Sérstaklega á það við um bílamarkaðinn.

Ef þetta frv. yrði samþykkt mundi það stöðva útlán sem byggja á ábyrgðum og jafnvel veðleyfum og neyða fjármálamarkaðinn til að meta sjálfstætt þá fjárfestingu sem lánað er til en ekki ábyrgðarmann sem kemur ekki nálægt þeirri fjárfestingu. Þannig yrði kippt burtu einum af þeim þáttum sem valda þenslu og erlendri skuldaaukningu þjóðarinnar.

Herra forseti. Ég styð eindregið þetta frv. og skora á efh.- og viðskn. sem fær það til umfjöllunar að afgreiða það sem allra fyrst, sem hún getur vegna þess að hún hefur allar umsagnir í höndunum, jafnvel þannig að við getum afgreitt þetta mál fyrir áramót.