Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 17:40:49 (2037)

2000-11-21 17:40:49# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls, sem nánast undantekningarlaust hafa tekið undir og lýst stuðningi við frv. sem við ræðum hér.

Ég vildi nefna nokkur atriði við lok þessarar umræðu. Í fyrsta lagi býður núverandi fyrirkomulag upp á ákveðið ábyrgðarleysi samningsaðila. Þess vegna er frv. m.a. sett fram, þ.e. í því skyni að aga viðskiptalífið ef svo má að orði komast. Það getur ekki verið eðlilegt, a.m.k. að mati þess sem hér stendur, að sjálfsagt þyki að leita til þriðja aðila þegar þeir sem gera samning sín á milli eru ekki vissir um að hann gangi upp. Það er ekki bara að það sé gert í undantekningartilvikum, þegar menn telja áhættuna mikla, heldur virðist nánast regla að leitað sé til þriðja aðila í tilvikum sem þessum.

Ég vil líka nefna, virðulegi forseti, að ein meginhugsunin í frv. er að þegar aðilar komi að samningsborðinu þá liggi allar upplýsingar fyrir. Með öðrum orðum á að reyna að jafna aðstöðu þeirra sem samning gera, annars vegar þess sem lánar fé eða afhendir verðmæti og hins vegar þess sem í ábyrgð gengur, þ.e. með því að allar upplýsingar liggi á borðinu. Því miður er það svo, virðulegi forseti, og flestir þekkja dæmi um það, að oft á tíðum hefur verið leitað til þriðja aðila til að gangast í ábyrgð þegar fyrir hefur legið að aldrei yrði hægt að efna samninginn.

Um þetta eru mýmörg dæmi. Því er mjög mikilvægt að þegar slíkur samningur kemst þá liggi fyrir allar upplýsingar sem á þarf að halda. Við megum ekki gleyma því að það geta oft og tíðum verið gild rök á bak við það að gangast í ábyrgð. Það getur verið að menn séu sammála um að áhættan sé svo mikil, bæði lánveitandi og sá sem tekur lánið, að ástæða sé til þess. En menn verða þá að ganga að því vitandi vits, þ.e. þekkja þá áhættu sem þar býr að baki. Það er algjört grundvallaratriði enda meginþráðurinn í gegnum frv. sem við ræðum hér að allar upplýsingar liggi á borðinu. Liggi þær ekki á borðinu þá falli samningurinn um ábyrgð um sjálfan sig og sé þar af leiðandi ógildur.

Í þriðja lagi vil ég nefna það sem margir hv. þm. komu inn á í umræðunni og sumir kölluðu jafnvel forsjárhyggju, þ.e. þá hugmynd að ekki verði gert fjárnám í heimili þeirra sem gangast í ábyrgð. Eins og fram kemur í grg. með frv. þá byggist það fyrst og fremst á þeirri hugsun að hagsmunir samfélagsins séu meiri af því að fjölskyldur séu ekki brotnar upp í slíkum tilvikum en hinu að kröfuhafar fái greitt. Í þeim tilvikum að fjölskyldur brotna upp vegna þess að selja þurfti ofan af þeim íbúðina o.s.frv. þá er kostnaður samfélagsins oft og tíðum mjög mikill. Það er ekki þannig að fulltrúar samfélagsins hafi verið á vettvangi þegar viðkomandi samningur var gerður en það er samfélagið sem þarf að borga fyrir ábyrgðarleysi þeirra sem gerðu samninginn í upphafi.

[17:45]

Því tel ég þetta miklu fremur hreint og klárt hagsmunamat en nokkurn tíma forsjárhyggju og að auki til þess fallið að mínu viti --- eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar --- að aga viðskiptalífið sem ég held að mikil þörf sé á. Að vísu hefur horft til talsverðra framfara undanfarin ár en ég held að það þurfi að aga það mun meira.

Það má kannski nefna sem dæmi í þessari umræðu að hugmyndin um ábyrgðarmenn og það að þriðji aðili gangi í ábyrgð er alls ekki þekkt mjög víða. Þegar ég var að vinna að þessu máli í upphafi lét ég kanna það í einni stórborg vestur í Ameríku hvernig reglur giltu þar um ábyrgðarmenn svona almennt. Þá virtist mér koma í ljós að menn þekktu lítið til þess að þriðji aðili væri að ábyrgjast slíka samninga. Hins vegar voru dæmi þess í tilvikum þar sem menn voru sammála um að áhættan væri mikil og allar upplýsingar lágu á borðinu að menn reyndu að afla sér einhverra viðbótartrygginga. En að tryggingarvíxlar lægju nánast út um borg og bý þar sem aðilar hefðu skrifað upp á upp á einhver hugsanleg framtíðarvanskil, menn skildu einfaldlega ekki um hvað málið snerist. Þetta þótti mér mjög merkilegt á sínum tíma.

Ég vil líka segja það, virðulegi forseti, að ég hefði viljað heyra hæstv. viðskrh. taka ögn afdráttarlausar í það að hún stæði að baki því að þetta frv. gæti orðið að lögum. Hæstv. ráðherra lokaði hins vegar ekki á að svo gæti orðið ef umsagnir og annað slíkt bentu til þess. Ég vil þá einnig benda á að í þessari umræðu er vitaskuld búið að senda þetta frv. a.m.k. í tvígang til allra hugsanlegra umsagnaraðila. Í sjálfu sér er því ekki mikil þörf á því að senda málið út til umsagnar.

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka þeim þingmönnum sem töluðu í þessu máli og tóku undir það. Ég held að það mál sem við ræðum hér sé mikið þjóðþrifamál og núverandi ástand í þessum málum sé svartur blettur á íslensku samfélagi. Það er umhugsunarefni fyrir okkur að málefni ábyrgðarmanna, eins og þau sem við ræðum hér, og að sú staða sem er uppi skuli hvergi þekkjast á byggðu bóli og jafnvel svo að hugsunin að baki því að þriðji aðili skuli ætíð lenda í því að þurfa að ábyrgjast samning er ekki alþekkt heldur.

Ég tek undir það sem margir hv. þm. hafa sagt hér, ég held að Alþingi eigi að taka á sig rögg og ganga í það verk að samþykkja þetta frv. Það er fullreynt með aðrar leiðir, það er fullreynt með samninga viðskiptabanka og stjórnvalda, það er fullreynt að hægt sé að heimila viðskiptabankanum að setja eigin reglur. Ég held að löggjafarvaldið geti ekki lengur setið hjá og það sé algjörlega nauðsynlegt þó ekki sé nema vegna heiðurs löggjafarsamkundunnar að ganga í það verk að samþykkja þetta frv.