Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:56:40 (2068)

2000-11-21 20:56:40# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:56]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um réttindagæslufrv., þá slitnaði það aftan úr lestinni, ef svo má segja, fyrir mistök eða þ.e. það náði ekki afgreiðslu með hinum frv. af því að einhverjir höfðu áhuga á því að lesa það nánar. Búið var að afgreiða það úr ríkisstjórninni og ég hélt að búið væri að senda það til þingflokkanna en ég komst að því í dag að okkur hefur láðst í félmrn. að senda þingflokkunum þetta frv. Ég hygg að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir geti staðfest að það hafi ekki komið til flokks hennar. Það er alfarið á ábyrgð okkar í félmrn. og er einfaldlega lapsus. Það er mér að kenna að frv. var ekki sent, ég hélt að það væri búið að því en gáði ekki að því að kanna það. En hv. þm. geta verið öruggir um að það kemur líka til afgreiðslu eins og önnur úr þessari lest.

Varðandi Öryrkjabandalagið þá er það alveg rétt sem hv. þm. sagði að þó að Öryrkjabandalagið ætti frumkvæðið að yfirfærslunni þá hefur það nokkuð breytt ákvörðun sinni eða samkvæmt bréfi frá í sumar en þá lá úttektin á málaflokknum eða kostnaðarmatið ekki fyrir og sama er að segja um Þroskahjálp á Suðurlandi. Þroskahjálp á Suðurlandi sendi mér viðvörunarbréf þar sem þeir gerðu ráð fyrir því að málaflokkurinn mundi lenda í fjárþröng og ég hygg að það sé ástæðan fyrir þessum sinnaskiptum. En ég tel að sá ótti sé ástæðulaus.