Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:09:47 (2072)

2000-11-21 21:09:47# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm., sem átti sæti í nefndinni sem samdi þetta frv., út í eitt atriði. Ég vil byrja á því að fagna atriði í þessu frv. sem mér finnst mjög jákvætt, þ.e. að þetta snúi til einstaklingsbundinnar þjónustu þannig að þjónusta við hvern einstakling er metin. Mér finnst það mjög jákvæð nálgun í þessu frv. Hæstv. ráðherra talaði um að langveik börn ættu sama rétt og fötluð börn samkvæmt þessu frv. og það er mál sem við höfum einmitt barist mjög fyrir og var nánast komið í lög. Ég fagna því að það sé áréttað hér.

En ég vil spyrja hv. þm. hvort börn og unglingar sem eiga eða hafa átt við fíkniefnavanda að stríða og þurfa á þjónustu sveitarfélaganna að halda, hafi jafnan rétt á við önnur börn, svo sem langveik eða fötluð börn, þ.e. hvar standa börn sem hafa átt við mikinn fíkniefnavanda gagnvart þjónustu samkvæmt þessu frv.?