Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:15:15 (2075)

2000-11-21 21:15:15# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:15]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Nú er til umræðu í annað sinn frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og ýmis viðhengifrumvörp þar við, m.a. um Greiningarstöðina og vinnumarkaðsaðgerðirnar. Síðan hefur ráðherra skýrt frá því hvað gerðist með réttindagæsluna. En það er líka mjög mikilvægt þegar nefndin fer yfir þetta að þetta hangi allt saman.

Ég fór afskaplega vel yfir frv. hér á sínum tíma og fór ofan í einstakar greinar þess og hvar mér þætti betur mega fara og hefur sumt af því jafnvel skilað sér núna á milli þessara umræðna. En það er auðvitað einn hópur sem ég hef enn þá áhyggjur af og það er sá hópur barna sem að hluta til flokkast undir að vera langveik, þ.e. börn með geðraskanir. Ég vil endilega taka það fram þegar svona málaflokkur fer yfir til sveitarfélaganna að ég fer ekki ofan af því að ég hef tröllatrú á sveitarfélögum einmitt í svona málum. Þetta eru málefni sem krefjast mikillar nálægðar og mikils stuðnings við viðkomandi fjölskyldur og möguleiki á því verður auðvitað enn meiri ef þetta kemur yfir til sveitarfélaganna og við þekkjum þetta í þyngri málum. Nálægðin verður líka alltaf dýrari og það hefur líka sýnt sig núna með málefnum grunnskólans.

Ég skil líka áhyggjur Öryrkjabandalagsins. Það er auðvitað verið að hugsa um peningana, alveg eins og öll önnur sveitarfélög eru líka að hugsa um þá.

Síðan er komið hérna fram sem sem við munum eflaust fara yfir í nefndinni og fá þangað fulltrúa sem hafa verið með þessi mál, þ.e. kostnaður vegna þjónustu við fatlaða. Þar kemur auðvitað fram sérstök bókun frá Karli Björnssyni sem sat þar sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Menn hafa auðvitað alltaf þessar sömu áhyggjur þegar þeir eru einu sinni búnir að vera í þessum sveitarstjórnum og kannski líka þessum geira sjálfum --- þá veit maður alveg hvar skórinn kreppir --- þ.e. áhyggjur af börnum með geðraskanir, því þau falla í rauninni undir tvenn lög, annars vegar þessi væntanlegu lög og síðan varðandi heilbrrn. Því er afar mikilvægt að skera úr í því og sveitarfélögin hafa líka áhyggjur af því að þessi börn munu koma í enn ríkara mæli án þess að gert hafi verið ráð fyrir þeim, bæði alveg nægjanlega í lögunum og hins vegar í kostnaðarreikningnum. Þetta er áhyggjuefnið. Því er afar brýnt að við förum vel ofan í þetta í nefndinni.

Hann segir hér, með leyfi forseta, um fjölgun þjónustuþega og breytta þjónustu í þessari bókun:

,,Mögulegt er að á næstu árum muni aukast þrýstingur á að ýmsir sem nú fá þjónustu heilbrigðisstofnana fái þjónustu í félagskerfinu og á stofnunum fatlaðra.``

Þetta er nefnilega auðvitað ekki innreiknað inn í alla þá útreikninga sem eru í þessu annars ágæta hefti. Hann leggur hérna til og segir, með leyfi forseta:

,,Draga má úr óvissu varðandi þessa hópa með því að skilgreina þann fjölda rýma sem heilbrigðisstofnanir bjóða þeim. Athugað verði með reglubundnum hætti hvort rýmunum fækkar og hvort ástæða sé til þess að auka fjármagn til sveitarfélaganna í framhaldi af slíkri fækkun.``

Hann er að tala um að þarna sé opin pípa þannig að í rauninni spili saman heilbrigðismálin hvað varðar þennan hóp og sveitarfélögin og það held ég að sé afar mikilvægt því þetta er afskaplega kostnaðarmikill málaflokkur.

Ég er á þeirri skoðun að þetta eigi að fara til sveitarfélaganna vegna notenda þjónustunnar. Ég held að þá séu miklu meiri möguleikar á að hafa góða þjónustu. Þess vegna er þetta kannski líka mjög flókið þegar verið er að setja saman stóra réttindalagabálka og þar sem verið er að tala um ýmsa þjónustu og annað.

Varðandi 5. gr. þegar verið er að tala um að félagsmálanefndirnar fari með hlutverk barnaverndarnefnda þá er ég á því að í stærri sveitarfélögum eigi að vera skipaðar sérbarnaverndarnefndir og það eigi hreinlega líka svolítið að vera í lögunum um það. Það verður fróðlegt að sjá því við eigum líka von á nýjum barnaverndarlögum eftir áramót og það er spurning hvernig þau taka á þeim málum. Ég vil meina að það sé mjög ólík vinna sem fer fram í barnaverndarnefndum og félagsmálanefndum. Því þarf örlítið að aðgreina þetta þannig að við tryggjum gríðarlega mikla fagmennsku í barnaverndarnefndinni, þó hún sé líka í félagsmálanefndinni, en hún er fyrst og fremst skipuð pólitískt kjörnum fulltrúum. Ég vil að við skoðum það dálítið í nefndinni hvernig þessu sé best fyrir komið og reynum að hlera dálítið það sem er að gerast í vinnunni við barnaverndarlögin.

Ýmsar smálagfæringar hafa auðvitað verið gerðar. Tekið hefur verið tillit til ýmissa þátta varðandi sveitarfélögin, þá sérstaklega í þeirra umsögnum. Mjög mikið af umsögnum liggur fyrir, en það þarf auðvitað að senda þetta aftur til þess að fá fram hjá sveitarfélögunum hvort þau hafi e.t.v. sérstakar viðbætur. Við eigum líka eftir að hitta fulltrúa þessara samtaka. Við eigum eftir að hitta fulltrúa sveitarfélaganna. Við eigum eftir að hitta sérfræðingana. Það verður mjög gaman þegar hægt verður að vinna þannig í nefndinni að hægt sé að fara yfir vel yfir málið. Jafnframt var talað um það, og að það væri spurning, hvort nefndin ætti að standa fyrir málþingi þar sem safnað væri saman nokkrum aðilum með alla þessa sérþekkingu þannig að við fengjum mikla heildarsýn yfir málið.

Mig langaði aðeins að koma örlítið inn á ræðu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur. Skyldur sveitarfélaganna gagnvart börnum, hvort sem þau eiga við mikil eða lítil vandamál að stríða, eru alveg jafnmiklar. Það er ekkert álitamál. Það bara stenst ekki lög að ef vandamál er mjög mikið þá vilji ekki sveitarfélögin eða félagsþjónustan með þau hafa. Sveitarfélag verður að axla ábyrgð á sínum litlu þegnum sem eiga í mörgu stríði. Barnaverndarlögin taka afskaplega skýrt líka á þessu. Þetta getur auðvitað haft í för með sér mikinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Þau geta jagast yfir því og reynt að sækja um eitthvað til Tryggingastofnunar. En skylda sveitarfélaganna er algerlega klár gagnvart öllum börnum undir 18 ára aldri, þó við þekkjum líka umræðuna hér um aldur barna 16--18 ára, sem er svo aftur önnur umræða.

Ég vil aftur leggja áherslu á 7. gr. og benda á að á meðan við höfum ekki sameinað þessi sveitarfélög þá er afar áríðandi að staðið sé við það sem stendur hérna, að vinna sameiginlega að félagsþjónustu með einstökum verkefnum hennar með sérstöku samkomulagi. Það er mjög mikilvægt að slíkt sé gert til þess að ekkert sleppi í gegn um það þéttriðna net sem félagsþjónustan á að spanna.

Félags- og tómstundastarfið kemur náttúrlega inn á þetta og það er spurning hvort það ætti að hnykkja betur á í þessu frv. hvort leitarstarf eigi að vera --- við ræddum þetta líka í fyrri umræðu hvort það ætti að hnykkja á því og setja slíkt inn í frv. hreinlega. Það er búið að gera réttinn aðeins skýrari bæði varðandi lögheimilið og útlendingana .

Ég vil benda aftur á 28. gr. um húsnæði og búsetu. Ég held að nefndin eigi aðeins að koma inn með það hvað sé verið að meina varðandi húsnæði og búsetu og þetta með leiguíbúðirnar. Við ræddum þetta með lið 2 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Húsnæði sem er ætlað að svara sérstökum þjónustuþörfum, sbr. 21. gr., svo sem:

a. íbúðir með sameiginlegri aðstöðu,

b. sambýli,

c. áfangastaðir.``

Mér finnst að þarna verði að tiltaka önnur búsetuform sem sveitarstjórn getur ákveðið því ýmsar lausnir geta verið þar í pípunum þannig að sveitarfélag hafi líka möguleika á að vinna að lausn í samráði við einstaklinginn og jafnvel félög.

Og íbúðir með sameiginlegri aðstöðu. Íbúð getur verið með eða án sameiginlegrar aðstöðu. Við erum að tala þarna um íbúðakjarna. Þetta er umræða sem er mjög þekkt innan fatlaða geirans og til eru ýmiss úrræði sem Bretar hafa verið að nýta mjög mikið. Ef við vitum af slíku í pípunum og ýmsum nýjum hugmyndum, eigum við þá ekki að koma með það í greinargerð?

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi ýmissa undirnefnda varðandi félagsmálanefndirnar sem eru hérna framar í frv. Það skiptir mjög miklu máli, t.d. þegar verið er að taka yfir svona málaflokk sem hefur ofboðslega breitt þjónustusvið og þar sem hægt er að vera með margs konar úrræði. Þá er afar brýnt að hafa skýra lagastoð þannig að hægt sé að skipa ýmsar undirnefndir til þess að taka að sér einstök mál og þá er ég sérstaklega að hugsa um þau mál sem þarf að vinna undir trúnaði. Það er óeðlilegt að heil pólitískt kjörin nefnd sé að vinna að slíkum málum og glugga í viðkomandi pappírum. Það er búið að gera það hér.

Ég held ég hafi þetta ekki lengra að sinni en minni á að nefndin á eftir að gera mjög margt. Við eigum eftir að fara á Reykjanesið, skoða ákveðin sambýli í Reykjavík. Við eigum eftir að fá til okkar sérfræðinga. Við eigum eftir að ræða kostnaðarmatsskýrsluna. Það er uggur í öllum sveitarfélögunum og það sem núna stendur þeim í raun fyrir þrifum þannig að þau segi bara já takk og þetta viljum við endilega gera, er auðvitað reynslan af grunnskólanum. Þess vegna er afar mikilvægt, ef af þessu verður, að allir endar varðandi fjármunina séu hnýttir eins vel og hægt er og það sé líka einhvers staðar borð fyrir báru ef eitthvað kemur upp á varðandi endurskoðun.

Ég læt þessu lokið að sinni, herra forseti.