Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:25:21 (2076)

2000-11-21 21:25:21# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði bara að þakka hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir útskýringarnar í ræðu hennar vegna fyrirspurnar minnar í andsvari áðan. Ég spurði um réttindi barna sem ættu í fíkniefnavanda gagnvart þessu frv. Ástæða þess að ég spyr er sú að foreldrar barna sem eiga við fíkniefnavanda að stríða hafa talað um að þeim finnist þau ekki hafa sambærilegan rétt og foreldrar langveikra barna eða fatlaðra barna. Hæstv. ráðherra gat þess í ræðu sinni áðan að langveik og fötluð börn hefðu sama rétt samkvæmt þessu frv. Þess vegna fannst mér mikið atriði að það kæmi hérna fram í umræðunni að börn í alvarlegum fíkniefnavanda og foreldrar þeirra ættu sambærilegan rétt samkvæmt þessu frv. Ég gat þess áðan í andsvari mínu að ég teldi það jákvæða nálgun í frv. hvernig komið er fram gagnvart þörfinni, en að ekki eru settar ákveðnar reglur eins og víða eru í heilbrigðiskerfinu.

Herra forseti. Aftur á móti óttast ég enn, þó svo þetta frv. sé komið hér fram, að ákveðin skörun sé milli heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins eins og oft vill verða. Menn eru að ýta málunum svona á milli sín. Ég vona nú samt að endurskoðun laganna verði til þess að minna verði um það.