Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:52:22 (2081)

2000-11-21 21:52:22# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er allur gangur á því hvernig við förum með meðbræður okkar, t.d. hvernig við sem förum með völdin í þessu húsi hér, Alþingi og sá meiri hluti sem hér ræður, hefur hagað sér gagnvart öryrkjum og öldruðum á liðnum árum. Ég held að menn eigi að taka varnaðarorð formanns Öryrkjabandalagsins mjög alvarlega.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir ætlar að taka mig í kennslustund og útlistaði að ég hefði farið í hringi í þessu máli, það getur vel verið. Ég held að það sé bara hollt að fara í nokkra hringi í þessu máli. Á því er ekki bara ein hlið heldur mjög margar. Ég held að okkur sé hollt að stíga mjög varlega til jarðar.

Öryrkjabandalagið lýsir því yfir að það sé að skipta um skoðun í þessu máli, það hafi stutt þetta frv. en hafi vaxandi efasemdir og sé nú að leggjast gegn því. Þar er ég staddur í tilverunni líka og tek undir þau varnaðarorð sem koma frá formanni Öryrkjabandalagsins og finnst ég bara í ágætu samfélagi þar.