Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 22:05:14 (2085)

2000-11-21 22:05:14# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., SoG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[22:05]

Soffía Gísladóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta er merkilegt frv. að því leyti að hér er verið að skeyta saman í ein lög rammalögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og sérlögum um málefni fatlaðra. Þetta hefur ekki verið auðvelt, en með mikilli vinnu hefur tekist vel til að koma þessu heim og saman í eitt heildstætt frv.

Herra forseti. Ég kýs að fara ekki sérstaklega í einstaka kafla eða greinar frv., ég hef gert það víða á öðrum vettvangi í starfi mínu, heldur kýs ég að skoða það í heild sinni með tilliti til þess hvaða áhrif lagasetning sem þessi og sá möguleiki að flytja skuli málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna hafi á landsbyggðina.

Málefni fatlaðra hafa verið rekin af ríkinu og eru enn rekin af ríkinu að hluta til og hafa þar til gerðar fagskrifstofur, svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra, borið ábyrgð á rekstri málaflokksins. Fyrir tæpum fjórum árum tók Akureyrarbær að sér málefni fatlaðra sem reynslusveitarfélagaverkefni. Það starfssvæði sem Akureyrarbær tók yfir var Eyjafjörður og syðsti hluti Suður-Þingeyjarsýslu. Á sama tíma var samið við Húsavíkurkaupstað og síðar við héraðsnefnd Þingeyinga um að taka að sér málefni fatlaðra í 13 sveitarfélögum í Norður- og Suður-Þingeyjarsýslum, skv. 13. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Þá var svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Norðurlandi eystra lögð niður. Sú skrifstofa hafði verið starfrækt á Akureyri og höfðu starfsmenn hennar sinnt málefnum fatlaðra frá Ólafsfirði til Þórshafnar. Þar var um gríðarlega stórt landsvæði að ræða sem oft var mjög erfitt yfirferðar og þar af leiðandi voru ferðir starfsmanna oft mjög stopular.

Þegar samningurinn var gerður við Húsavíkurkaupstað var forsendan fyrir honum sú að þá þegar var skipulögð félagsþjónusta starfrækt á Húsavík og barnaverndarnefndir höfðu verið sameinaðar í báðum Þingeyjarsýslum. En án þessarar grunnþjónustu hefði ekki verið grundvöllur fyrir samningi sem þeim sem gerður var. Samningurinn um málefni fatlaðra var mjög mikilvægur fyrir sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum þar sem hann var hvati að því að sveitarfélögin 14 sem standa að héraðsnefnd Þingeyinga sameinuðust um félagsþjónustu og svo skömmu síðar um skólaþjónustu.

Nú er starfrækt á Húsavík félags- og skólaþjónusta Þingeyinga sem sinnir félagsþjónustu, barnavernd, málefnum fatlaðra og skólaþjónustu fyrir Þingeyinga. Þarna er um að ræða breiðan hóp fagfólks sem vinnur sameiginlega að því að veita Þingeyingum þessa mikilvægu þjónustu.

Slík þjónusta, herra forseti, vil ég fullyrða að er mjög mikilvæg fyrir búsetu í hinum 14 sveitarfélögum Þingeyjarsýslna. Nútímafólk gerir kröfu um alla grunnþjónustu og hugi sveitarfélög ekki að því að veita hana eru þau ekki lengur með í baráttunni um íbúa landsins.

Á þennan hátt er það frv. sem mælt er hér fyrir, herra forseti, mjög mikilvægt fyrir öll hin smærri sveitarfélög landsins, og ég ítreka hin smærri sveitarfélög landsins, sem berjast fyrir að halda íbúum sínum hjá sér.

Nú á því herrans ári 2000 eru enn fjölmörg sveitarfélög sem ekki veita skipulega félagsþjónustu til handa íbúum sínum. Þegar ég segi skipulega félagsþjónustu, þá á ég við þjónustu þar sem fagfólk starfar að því að veita þjónustu samkvæmt lögum og reglum sveitarfélaga.

Í hinu nýja frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga er mjög skýrt kveðið á um að sveitarfélögum sé skylt að veita félagsþjónustu, eða eins og segir í kafla II, 3. gr., með leyfi forseta:

,,Sveitarfélög bera ábyrgð á félagsþjónustu innan sinna marka. Skulu þau með skipulagi á henni og viðbúnaði tryggja framgang markmiða skv. 1. gr. Þeim er skylt að veita félagsþjónustu, sbr. 2. gr., og framkvæma önnur þau verkefni sem lög þessi kveða á um.``

Í gildandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, segir hins vegar um skyldur sveitarfélaga, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélag ber ábyrgð á félagsþjónustu innan sinna marka og skal með skipulagðri félagsþjónustu tryggja framgang markmiða skv. 1. gr. þessara laga.``

Eins og þingmenn heyra komast sveitarfélög ekki lengur hjá því að veita skipulega félagsþjónustu með þessu frv. Vissulega bera þau sveitarfélög sem ekki enn veita skipulega félagsþjónustu kvíðboga fyrir því að taka yfir málefni fatlaðra, þar sem grunnþjónustan er ekki til staðar. Vissulega er það kvíðvænlegt fyrir lítil sveitarfélög að horfa fram á þann kostnaðarauka sem skipuleg félagsþjónusta veldur þeim. En ætli þau að vera með í samkeppninni um íbúa þessa lands, verða þau að veita þá grunnþjónustu. Og því fyrr sem þau hefja undirbúninginn, því betra.

Það færist æ meira í vöxt að sveitarfélög sem ekki sameinast sín á milli, sameinist um þjónustu sem þessa. Það hafa Þingeyingar gert, sömuleiðis Snæfellingar og fleiri sveitarfélög. Þjónustan hefur með þessu móti færst nær íbúum þessara sveitarfélaga og er reynsla Þingeyinga af þeirri samþættu þjónustu sem þar er mjög góð. Þegar ég fullyrði þetta þá vísa ég ekki í vísindalegar kannanir sem gerðar hafa verið, heldur vísa ég til ummæla íbúa sveitarfélaganna, svo sem aðstandenda fatlaðra einstaklinga. Og ég vil leggja áherslu á ánægju aðstandenda fatlaðra einstaklinga í mjög smáum sveitarfélögum sem telja ekki fleiri íbúa en u.þ.b. 100--150 manns.

Fleiri aðilar hafa kvatt sér hljóðs um ánægju með slíka þjónustu, þ.e. fagfólk sem starfar í nánu samstarfi við þá þjónustu, þ.e. skólastjórnendur, kennarar, heilbrigðisstarfsfólk og lögregla. Ég legg mikla áherslu á það sem ég sagði að aðstandendur í smáum sveitarfélögum hafa verið mjög ánægðir með þjónustuna og vil ég af þessu tilefni bjóða hv. þm. Ögmund Jónasson og stjórn Öryrkjabandalagsins velkomin til Þingeyjarsýslna til að kynna sér hversu vel hefur til tekist í þessum málaflokki.

Sú staðreynd að þjónustan færist nær er ein af þeim forsendum sem litið var til þegar hvatt var til þess að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Félagsþjónusta og þjónusta við fatlaða er mjög viðkvæm þjónusta sem krefst nálægðar við viðfangsefni sín, líkt og heilbrigðisþjónusta.

Herra forseti. Með því að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna svo og að skylda sveitarfélögin til að sinna skipulegri félagsþjónustu, verður það til þess að fagfólki muni fjölga mjög í þeirri starfsgrein á landsbyggðinni. Ég nefni sérstaklega til landsbyggðina, því þar vantar mikla grunnþjónustu í félagsþjónustunni og þar verður uppbyggingin mest.

Forsendan fyrir því að hægt sé að veita þjónustu sem þessa er sú að fagfólk fáist til starfa. Til þess að tryggja að svo verði verðum við að huga betur að menntun starfsfólks í þeirri þjónustu og þá vil ég helst nefna félagsráðgjöf og þroskaþjálfun. Nám í þessum tveimur starfsgreinum er einungis kennt í Reykjavík og þykir mér mikilvægt að kanna þann möguleika að skipuleggja nám í þeim greinum við Háskólann á Akureyri. Staðreyndin er sú að mun betur gengur að fá fagfólk sem menntað er við Háskólann á Akureyri til starfa úti á landsbyggðinni en fagfók sem menntað er við Háskóla Íslands. Því tel ég mikilvægt að þessi möguleiki sé kannaður.

Við Háskólann á Akureyri hefur í auknum mæli verið boðið upp á fjarnám og tel ég mikilvægt að við skipulag náms sem þessa verði strax frá upphafi gert ráð fyrir að íbúar í öðrum byggðum landsins eigi þess kost að stunda það. Ég mun beita mér fyrir því, herra forseti, að skoðaður verði sá möguleiki að koma á háskólanámi fyrir þær fagstéttir sem tengjast félagslegri þjónustu við Háskólann á Akureyri.

Aukin grunnþjónusta á landsbyggðinni hlýtur að vera liður í að snúa við þeirri byggðaþróun sem við horfum á í dag, sem er mikill straumur íbúa af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Því tel ég mikilvægt, herra forseti, að frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga sem hér hefur verið kynnt verði að lögum.