Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 22:33:54 (2089)

2000-11-21 22:33:54# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[22:33]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi gleymt að svara því hvort þetta hafi farið út til allra hagsmunaaðila, félagasamtaka og aðildarfélaga Öryrkjabandalagsins. Ég held að megi segja að það hafi verið gert en hins vegar fórst það fyrir og komst ekki upp fyrr en fyrir fáum dögum að gleymst hafði að senda frumvörpin til umsagnar hjá stjórnendum vistheimila. Úr því mun náttúrlega verða bætt núna og alveg sjálfsagt að það verði gert því að það var einmitt markmiðið að senda frumvörpin sem víðast til umsagnar til þess að fá sem flest sjónarmið um þessi mál. Eins og kom fram hjá hæstv. félmrh. er meiningin að reyna að ná sem bestri samstöðu um þetta mál.

En varðandi stefnubreytingu Öryrkjabandalagsins, sem ég reikna kannski ekki með að komi fram hjá mjög mörgum öðrum virðast hafa vaknað upp efasemdir hjá þeim um það, eins og þeir komast að orði, að svokölluð samþætting eigi rétt á sér, sem lengi hefur verið helsta baráttumál fatlaðra. Þeir segja m.a. hér:

,,Þeir sem eindregnast hafa gengið fram í þeim boðskap að færa beri flestalla málaflokka til smærri stjórnsýslueininga hafa haft tilhneigingu til að vanmeta þær margvíslegu hættur, þversagnir og vandamál sem innbyggð eru í sjálfu lýðræðinu, svo öruggt og gott sem okkur kann að finnast það.``

Þetta eru sem sagt efasemdir Öryrkjabandalagsins núna um að lýðræðið sé nægilega traustvekjandi til þess að takast á við þennan málaflokk.