Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:04:31 (2093)

2000-11-21 23:04:31# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og hef svo sem ekki miklu við að bæta. Ég vil þó undirstrika að upptök þessa máls eru hjá Þroskahjálp og Öryrkjabandalaginu, eindregnum óskum Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar að málaflokkurinn færi til sveitarfélaganna.

Sveitarfélögin tóku þessari áskorun og samþykktu á fulltrúaráðsfundi, mig minnir að það hafi verið 1994, að taka við þessum málaflokki. Síðan hefur verið unnið sleitulaust að þessari yfirfærslu og útfærslu hennar.

Út af fyrir sig þakka ég hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir það mikla traust sem hann hefur á okkur í félmrn., að vilja heldur að málaflokkurinn sé hjá okkur áfram. Það er ánægjuefni fyrir mig.

Varðandi vinnumálin þá kem ég nánar að því þegar ég fæ tækifæri til að mæla fyrir frv. um breytingu á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir en þjónusta við fatlaða sem nær til starfsráðgjafar, atvinnuleitar, vinnumiðlunar og annarrar almennrar aðstoðar telst tvímælalaust til viðfangsefna Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlunar að óbreyttum lögum. Fylgifrv. um vinnumarkaðsaðgerðir fjallar ekki um þá aðstoð. En það er nauðsynlegt að fyrir liggi skýr skilgreining á því hvað teljast atvinnumál fatlaðra og hvað eigi að falla undir félagsþjónustu sveitarfélaga. Með hliðsjón af efni laga um vinnumarkaðsaðgerðir og í því skyni að atvinnumál fatlaðra falli sem best að þeim, svo og með það í huga að koma í veg fyrir vafaatriði og grá svæði, þá er lagt til í þessu frv. að umrædd skil komi fram í því hvort greidd séu laun samkvæmt kjarasamningi. Það þýðir að gerð er krafa um vinnuframlag einstaklinganna og svæðisvinnumiðlun er ætlað að meta vinnufærni þeirra. Lögin fela þannig í sér tvenns konar þjónustu, sbr. 1. og 2. gr. frv. um vinnumarkaðsaðgerðir. Annaðhvort er um að ræða vinnu á vernduðum vinnustöðum og dagvist sveitarfélaga þar sem gerð er krafa um vinnuframlag og laun eru samkvæmt kjarasamningum eða stuðning við fatlaða sem vinna á almennum vinnumarkaði við störf sem launuð eru samkvæmt kjarasamningi.

Hugmyndin með þessu frv. er ekki að stefna að einkavæðingu. Hins vegar er heimild til að halda áfram með þjónustusamninga sem við höfum gert og hafa gefist prýðilega. Ég nefni Sólheima í Grímsnesi, Skaftholt og reyndar fleiri staði, Skálatún. Við höfum ekkert upp á þau samskipti að klaga.

Varðandi gildistökuákvæðið þá held ég að ekki sé tiltækilegt annað en annaðhvort hrökkva eða stökkva.

Hér var spurt um geðsjúk börn. Ef börn eru alvarlega geðsjúk þá er það tvímælalaust heilbrigðismál og barna- og unglingageðdeild heyrir undir heilbrrn. eins og menn vita.

Það liggur alveg í augum uppi að lítil sveitarfélög verða að mynda byggðasamlög til þess að geta tekið við þessum málaflokki. Engum dettur í hug að Grímsey t.d. ein og sér taki við þessum málaflokki, ég sé það ekki fyrir mér. Við höfum módel að því hvernig hægt er að gera þetta, meira að segja fleiri en eitt. Það er hægt að gera þetta eins og Þingeyingar eða eins og gert er í Norðurlandskjördæmi vestra, á Akureyri eða á Suðausturlandi. Það er hægt að hugsa sér margs konar aðferðir.

Samkvæmt venju sinni lagðist hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, frekar gegn þessu máli og fann því margt til foráttu. Ég man ekki eftir nokkru máli sem ég hef flutt í minni ráðherratíð sem hv. þm. hefur ekki verið reglulega mikið á móti.

Menn hafa núna fyrir sér heildarpakkann, væntanlegt lagaumhverfi og fyrirsjáanlegan kostnað. Vilji samtök fatlaðra og aðstandenda þeirra ekki taka þetta skref eða vilji sveitarfélögin ekki taka við málaflokknum þá held ég að við ættum að hætta við þessi áform. Það er búið að leggja óhemju vinnu í undirbúning þessarar yfirfærslu. Ég mundi sjá eftir þeirri vinnu ef hún færi fyrir ekkert. En eins og ég sagði í upphafi tel ég ekkert vit í að gera þetta í trássi við samtök fatlaðra og aðstandendur þeirra eða neyða þessum málaflokki upp á sveitarfélögin.