Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:11:21 (2094)

2000-11-21 23:11:21# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf eiginlega að snúa spurningu minni til hæstv. félmrh. upp í yfirlýsingu um ánægju yfir lokaorðum hans, að hann mundi ekki fara fram með þetta frv. og þessar lagabreytingar í óþökk heildarsamtaka fatlaðra. Hæstv. ráðherra rakti að upphaflega hefðu komið fram óskir frá Þroskahjálp og Öryrkjabandalaginu, held ég að hann hafi nefnt, og síðan hafi sveitarfélögin samþykkt þessar hugmyndir í kjölfarið.

Síðan gerist það að smíðað er frv. Þar koma þessir aðilar með samþykki, en mjög skilyrtu samþykki. Síðan, eftir því sem tíminn líður og menn fara að skoða reynsluna af flutningi af öðrum verkefnum frá ríki til sveitarfélaga, skoða reynsluna erlendis frá og meta málin heildstætt, er svo komið að a.m.k. Öryrkjabandalagið hefur snúist gegn þessum breytingum. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. félmrh. að verði ekki breyting á þeirri afstöðu muni þetta mál ekki ná fram að ganga, hann muni einfaldlega ekki beita sér fyrir því frekar.

Hæstv. ráðherra segist sjá eftir þessari vinnu. Ég held að við eigum ekki að sjá eftir neinu sem leiðir til farsællar niðurstöðu, hver svo sem hún er, og að hlutirnir og lagabreytingar séu gerðar í sátt við þá sem lögin eiga að þjóna. Það eru að sjálfsögðu þeir sem aðild eiga að þessum samtökum.