2000-11-22 00:03:25# 126. lþ. 28.13 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[24:03]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Mér finnast þetta nú ekki, herra forseti, eins mikil tíðindi og hv. síðasta ræðumanni. Endurskoðunarnefndin er auðvitað að fjalla um ákveðin grundvallaratriði í fiskveiðistjórnun okkar. Komist hún að niðurstöðum þar sem um er að ræða grundvallarbreytingar þá sé vel mögulegt að þær leiði til þess að gerðar yrðu breytingar á úthafsveiðilögunum. Það liggur því til grundvallar að ég legg til að frestað verði að taka ákvörðun um hvernig standa eigi að veiðum úr norsk-íslensku síldinni. Vinna endurskoðunarnefndarinnar gæti leitt til þess að sú endurskoðun yrði á annan veg en verið hefði ef sú endurskoðun hefði farið fram áður en endurskoðunarnefndin skilar niðurstöðu sinni.

Hér er einfaldlega leitast við að hafa samræmi í þeim breytingum sem ríkisstjórnin leggur til á Alþingi á lögum sem varða fiskveiðarnar. Það skiptir auðvitað miklu máli þegar við erum sérstaklega að vinna með grundvallaratriði eins og endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða í dag.