Vegagerðarmenn í umferðareftirliti

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:03:27 (2139)

2000-11-22 14:03:27# 126. lþ. 30.2 fundur 85. mál: #A vegagerðarmenn í umferðareftirliti# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég tel mikilvægt að þessar upplýsingar hafi komið fram. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að réttarstaða vegaeftirlitsmanna við þessi störf væri sú sama og ríkisstarfsmanna almennt. Ég hefði talið að umrædd nefnd sem starfar á vegum hæstv. ráðherra þyrfti að fara ofan í þau mál. Við vitum a.m.k. af fréttum að það eru alltaf líkur á átökum þar sem löggæsla er annars vegar. Það segir reynslan okkur. Því miður er allt of mikið um að til átaka komi þegar löggæsla er annars vegar. Þess vegna þarf að horfa til þess að vegaeftirlitsmenn, sem þarna fá aukið starfssvið, séu tryggðir og heyri undir svipaðar reglur og þeir sem þeir vinna með í þessum eftirlitsbifreiðum.

Ég velti því einnig fyrir mér hvort nefndin ætti ekki að skoða hvort ekki væri ástæða til þess að þessir vegaeftirlitsmenn, sem eiga að vera sem vitni, undirrituðu eiðstaf eins og lögreglumenn. Ég fagna því, herra forseti, að þessir starfsmenn fari á sérstakt námskeið. Það er vissulega að mörgu að hyggja við þessi störf eins og við öll vitum. Því betur sem þeir eru undirbúnir fyrir þau störf, því betur ætti þetta að ganga.