Lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:16:14 (2145)

2000-11-22 14:16:14# 126. lþ. 30.3 fundur 247. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Rétt til að bæta við það sem ég hef hér fylgt eftir þá finnst mér einhvern veginn eins og stjórnvöld séu í einhverjum loftfimleikum til þess að komast hjá því að efna það loforð sem hér hefur verið rætt um. Þessir fimleikar snúast um það mikla talnaspil sem er verið að búa til um hitaveitur, rafveitur og hvernig þetta hafi allt saman áhrif.

Staðreyndir málsins eru að gefið var loforð um að lækka dýru húsaveiturnar niður í meðaldýran flokk. Í skýrslu Fjarhitunar sem lögð var fyrir Byggðastofnun og líka byggðanefnd forsrh. var á þáverandi verðlagi talað um að fara niður í 64 þús. kr. sem er meðaldýri flokkurinn og við það á auðvitað að standa. Þetta var það sem hæstv. forsrh. tók undir og mælti með og vísa ég þar enn einu sinni í byggðanefnd hæstv. forsrh.

Síðan eru í gangi aðrir fimleikar sem snúast um að í lögum standi einhvers staðar eitthvað um niðurgreiðslu á rafhitun en ekki hitaveitur. Hér hefur komið fram og hér er í gögnum fjallað um að jarðvarmaveitur eins og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar kosti tæpar 107 þús. kr. á meðan niðurgreiðsluveiturnar á svæði rafmagnsveitna kosti 84 þús.

Herra forseti. Ég vil í lokin, vegna þess að ég hygg að hæstv. iðnrh., ráðherra byggðamála, vilji setja verulegt mark sitt á fyrsta ár sitt í stöðu ráðherra byggðamála, hvetja hæstv. iðnrh. til að þessi nefnd ljúki sem fyrst störfum og að við komumst að einhverri niðurstöðu um þær tölur sem við erum hér að fjalla um. En þær eru dálítið í háaloftunum og líkjast því, eins og ég sagði áðan, að við séum í einhverjum loftfimleikum til þess að reyna að komast hjá því að efna þetta loforð og setja peninga í það sem lofað var.