Skógræktarverkefni á Austurlandi

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:39:14 (2179)

2000-11-22 15:39:14# 126. lþ. 30.10 fundur 277. mál: #A skógræktarverkefni á Austurlandi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Endurheimt gróðurs sem þakti Ísland við landnám er markmið sem stefnt hefur verið að markvisst síðasta áratug. Þeir skógar sem Skógrækt ríkisins hefur ræktað á öldinni eru helsta forsenda allrar skógræktar í landinu og verk frumkvöðlanna eru að skila sér í aukinni tiltrú manna á að skógrækt sé möguleg hér á landi. Vantrú fólks heyrir því sögunni til, enda er ekki stefnt að ræktun hávaxinna trjáa heldur miðað við aðstæður á hverjum stað.

Veðurfar á Fljótsdalshéraði hentar vel til skógræktar og þar var fyrsta stóra nytjaskógaverkefninu hleypt af stokkunum með stofnun Héraðsskóga. Nú er komin tíu ára reynsla af verkefninu og er ljóst að það hefur staðið undir því markmiði að treysta byggð á svæðinu.

Skógrækt er vel til þess fallin að efla byggðina. Hún er ekki til þess fallin að vera átaksverkefni sem sveiflujöfnun í hagkerfi. Þetta er fyrst og fremst byggðaverkefni og sérstaklega er hentugt að koma á skógrækt þar sem byggð hefur veikst, vegna þess að hefðbundinn búskapur hefur lagst af.

Á eftir Héraðsskógaverkefninu komu landshlutabundin verkefni og Suðurlandsskógar. Nú er svo að á fleiri svæðum á Austurlandi utan Fljótsdalshéraðs, þ.e. á Vopnafirði, niðri á fjörðum og í Austur-Skaftafellssýslu, er mikill áhugi á því að koma á landshlutabundnu skógræktarverkefni. Það er ekki bara áhugi á því að gróðursetja tré, ekki eins og var hjá frumkvöðlunum fyrstu, að athuga hvort hægt sé að rækta, heldur að hafa þetta sem hluta af atvinnu, til að efla byggð, þ.e. að skapa nýja auðlind fyrir þjóðina, bæta lífríki landsins, verjast landrofi og bæta skilyrði og hagkvæmni fyrir hefðbundinn búskap og skapa nýja möguleika á því sviði. Því spyr ég hæstv. landbrh.:

,,Er í undirbúningi að koma á landshlutabundnu skógræktarverkefni á Austurlandi utan Fljótsdalshéraðs á grundvelli sambærilegra samninga og gilda nú þegar í öðrum landshlutum um skógræktarverkefni?``