Skipun í nefndir og ráð á vegum ríkisins

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:03:49 (2183)

2000-11-27 15:03:49# 126. lþ. 32.1 fundur 137#B skipun í nefndir og ráð á vegum ríkisins# (óundirbúin fsp.), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ber fram spurningu til hæstv. forsrh. og óska svara við því hver stefna ríkisstjórnarinnar sé í sambandi við skipan í nefndir og ráð á vegum ríkisins. Ég spurði þessarar spurningar árið 1998 og þá kom í ljós að 83,8% af þeim sem skipaðir voru í nefndir og ráð á vegum ríkisins voru búsettir í Reykjavík og Reykjanesi. En samkvæmt því svari sem ég hef fengið frá forsrn. er staðan nú árið 2000 sú að 77,6% af þeim sem skipaðir eru í nefndir og ráð á vegum ríkisins eru búsettir í Reykjavík og Reykjanesi.

Það vekur sérstaka athygli mína að frá Norðurl. e., þar sem 9,6% landsmanna búa, koma einungis 5% þeirra sem skipaðir eru í nefndir og ráð á vegum ríkisins.

Virðulegi forseti. Í nefndum og ráðum fer fram stefnumörkun sem er grunnur þess sem við gerum varðandi stjórnsýsluna í landinu. Þess vegna er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig skipað er í nefndir og ráð, sérstaklega út frá stöðu landsbyggðar. Ég er einmitt að fiska eftir því hvort menn marki sér stefnu um það hvernig samsetning slíkra nefnda og ráða er.