Skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 14:05:31 (2271)

2000-11-28 14:05:31# 126. lþ. 33.91 fundur 143#B skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[14:05]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Hér er afskaplega sérkennilegur málflutningur á ferðinni. Á fundi forseta í gærmorgun með formönnum þingflokka var lögð áhersla á að þessi mál þyrfti að ræða í samhengi, þ.e. tekjustofnafrv. og tekjuskattsfrv. Það var ætlun formanns efh.- og viðskn. að ljúka umfjöllun um tekjuskattsfrv. á fundi í nefndinni á fimmtudaginn var. Þá var óskað eftir því af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að svigrúm fengist til að ræða málin í þingflokki hennar á mánudaginn. Á það var fallist af hálfu meiri hlutans og formannsins og í raun og veru er ekkert meira um þetta að segja. Ekkert sérstakt nýtt hefur komið fram í málinu. Þar að auki hefur formaður efh.- og viðskn. boðist til að taka málið til umfjöllunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. ef eitthvert tilefni er til þess. Ég átta mig ekki alveg á því hvað menn eru að fara hér. Í öðru orðinu er verið að tala um að þessi mál þurfi að ræða í samhengi en í hinu orðinu er lagst gegn því að málið sé afgreitt úr nefnd. Síðan er boðist til að taka það inn aftur í nefndina. Ég sé því ekki betur en verið sé að koma til móts við stjórnarandstöðuna með lipurð af formanni efh.- og viðskn. og verið sé að gera úlfalda úr mýflugu.