Skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 14:09:37 (2273)

2000-11-28 14:09:37# 126. lþ. 33.91 fundur 143#B skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa furðu minni á ummælum hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur sem fram komu hér áðan vegna þess að það er ekki rétt að ekki séu nýjar upplýsingar í málinu. Það hefur komið fram að fjórðungur af almennri launahækkun hverfi í skattahækkun. Við vorum ekki búin að skoða málið í því ljósi fyrir helgina í efh.- og viðskn., þ.e. í samhengi við kjarasamninga. Það verður hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir að viðurkenna.

Það hefur komið fram hjá ASÍ að skattahækkunin grefur undan forsendum kjarasamninga og að mati forustu ASÍ eru kjarasamningar við það að bresta. Hv. þm. leyfir sér að segja að við séum að gera úlfalda úr mýflugu og ekkert nýtt hafi komið fram í málinu. Víst hefur komið fram nýtt í málinu síðan formenn þingflokka ræddu þetta mál á fundi forseta eða síðan efh.- og viðskn. ræddi málið fyrir helgi.

Það sætir furðu að hv. þm. segi að ekkert nýtt sé í málinu. Telur hv. þm. að það sé virkilega ekkert að þegar um það er að ræða að kjarasamningar eru komnir í slíkt uppnám sem heildarsamtök launafólks hafa sagt hér í dag? Við erum að reyna að forða því að raska þessum kjarasamningum. Við vildum fá meira svigrúm í nefndinni til að fjalla um málið. Tekjuskattsfrv. er ekki á dagskrá þingsins í dag þannig að við hefðum haft það svigrúm sem við báðum um til þess að hafa fund í efh.- og viðskn. í dag. Því mótmæli ég vinnubrögðum meiri hlutans í efh.- og viðskn. í málinu. Ég bið um það lengstra orða að við reynum að setjast yfir það að reyna að ná sátt í málinu til að forða því að raska nýgerðum kjarasamningum.