Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 14:23:47 (2281)

2000-11-28 14:23:47# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, frá meiri hluta félmn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Húnboga Þorsteinsson, Guðjón Bragason og Hermann Sæmundsson frá félagsmálaráðuneyti, frá Reykjavíkurborg Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Önnu Skúladóttur og Helgu Jónsdóttur, frá Hafnarfjarðarbæ Halldór Árnason og Magnús Gunnarsson, frá Kópavogsbæ Sigurð Geirdal, Flosa Eiríksson og Braga Michaelson, frá Akureyrarbæ Kristján Þór Júlíusson, Ásgeir Magnússon og Jakob Björnsson, frá Borgarfjarðarsveit Ríkharð Brynjólfsson, frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi Þorvald Jóhannesson og frá Ísafjarðarbæ Halldór Halldórsson. Frá Ferðaþjónustu bænda kom Kolbrún Úlfsdóttir, frá Landssambandi veiðifélaga Óðinn Sigþórsson og Jónas Aðalsteinsson, frá Öryrkjabandalagi Íslands Helgi Seljan og Garðar Sverrisson, frá Landssambandi eldri borgara Ólafur Ólafsson og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þórður Skúlason.

Umsagnir bárust frá 35 sveitarfélögum, samtökum þeirra og öðrum aðilum.

Frumvarpið er samið í samræmi við tillögur nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði 2. júní 1999 til að endurskoða ákvæði laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Þær breytingar eru lagðar til með frumvarpinu að heimild sveitarfélaga til útsvarsálagningar verði hækkuð í tveimur áföngum um samtals 0,99% til þess að mæta aukinni fjárþörf sveitarfélaganna og bæta fjárhagsstöðu þeirra. Einnig er gert ráð fyrir að miða álagningarstofn fasteignaskatts við fasteignamat til að tryggja að fasteignaskattur reiknist af því sem næst raunvirði fasteignar og jafna með því stöðu fasteignareigenda á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Þá er frumvarpinu jafnframt ætlað að tryggja að þau sveitarfélög sem verða fyrir tekjutapi vegna breytinganna á álagningarstofninum verði í sömu stöðu og áður með greiðslum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jafnframt eru lagðar til breytingar til að jafna samkeppnisstöðu í ferðaþjónustu og eyða réttaróvissu vegna álagningar fasteignaskatts á hlunnindi og jarðeignir sem ekki eru nýttar til landbúnaðar. Er það gert í kjölfar dóma Hæstaréttar frá árinu 1999 um að mismunandi álagningarprósenta fasteignaskatts á jarðeignir og hlunnindi eftir notkun brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár og álits samkeppnisráðs frá árinu 1998 um að það stríði gegn markmiðum samkeppnislaga að húseignir í samkeppnisrekstri á gistimarkaði greiði mismunandi hátt hlutfall af álagningarstofni fasteignaskatts þar sem í því felist að rekstraraðilum sé mismunað. Þá er áréttað að öll fiskeldismannvirki skuli skattlögð skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Við umfjöllun ræddi nefndin sérstaklega málefni ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Er það mat meiri hlutans að íhuga þurfi sérstaklega við frekari endurskoðun laganna hvort sveitarfélögum skuli vera heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt af gistiaðstöðu á landsbyggðinni sem sannanlega er eingöngu nýtt fáa mánuði ársins.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi er lagt til að skatturinn skuli lagður á samkvæmt fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári en skv. 6. mgr. 3. gr. laganna fær hvert sveitarfélag fyrir 1. desember ár hvert skrá yfir álagningarstofn fasteignaskatts frá Fasteignamati ríkisins. Í ljós hefur komið að sum sveitarfélög hafa miðað álagningu sína við álagningarstofninn eins og hann er 1. desember en önnur við 1. janúar. Er ákveðinni dagsetningu ætlað að koma í veg fyrir mismunandi álagningu sveitarfélaganna. Í öðru lagi er tekinn af allur vafi um að eingöngu erfðafestulönd í dreifbýli skuli tilheyra álagningarstofni a-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Í þriðja lagi er um að ræða viðbót við 13. gr. laganna þar sem heimild er veitt til greiðslu framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar við vatnsveitu á vegum eigenda einstakra lögbýla þegar sveitarstjórn telur fjárhagslega óhagkvæmt að leggja vatnsveitu að þeim. Er breytingunni ætlað að tryggja stuðning við vatnsveituframkvæmdir á vegum einkaaðila í sveitum. Þá er gert ráð fyrir í tillögunni að Bændasamtök Íslands annist stjórnsýslu vegna meðferðar umsókna um framlögin þó að endanleg ákvörðun um heildarframlög verði tekin af félagsmálaráðherra að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Til að tryggja jafnræði er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að unnt verði að styrkja vatnsveituframkvæmdir sem hófust á árunum 1999 og 2000.

Undir nál. rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Pálsson, Drífa Hjartardóttir og Jónína Bjartmarz.