Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 15:31:30 (2286)

2000-11-28 15:31:30# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Árni Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég er að draga fram í umræðunni, og ástæða þess að ég geri athugasemd við ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, er að menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir, a.m.k. á sama degi, í gagnrýni á störf ríkisstjórnarinnar. Af því að menn eru að grípa til myndlíkinga þá datt mér í hug að í gamla daga þegar ég var að alast upp voru gírkassar orðnir samhæfðir í öllum bifreiðum nema gömlu rússajeppunum. Þetta tal minnir mig stundum á gömlu rússajeppana. Menn gátu ekki skipt beint úr öðrum gír í þriðja án þess að urgaði og surgaði. Það er ég að benda á, þ.e. að menn verða í málflutningi sínum á hinu háa Alþingi að vera sjálfum sér samkvæmir og tala þannig að eftir þingdaginn hafi aðrir hv. þm. tilfinningu fyrir því,að þeir meini eitthvað með því sem þeir eru að segja.