Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 16:04:29 (2296)

2000-11-28 16:04:29# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki verið sammála hv. þm. um það vegna þess stjórnarandstaðan hefur a.m.k. haldið því fram að bætt staða ríkissjóðs væri vegna hinnar auknu þenslu sem er í þjóðfélaginu og jafnvel mjög slæms viðskiptahalla. Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram. Varla getur það verið hvort tveggja.

En varðandi heimilin, að kostnaði þeirra sé velt yfir á hina í fjölskyldunni þá gerist það ekki þannig. Það gerist ekki þannig þegar endar ná ekki saman hjá fjölskyldunni að bóndinn segi við konuna: Heyrðu, nú velti ég þessu yfir á þig. Eða að hún segi við hann: Heyrðu, nú velti ég þessu yfir á þig. Ætli þau taki ekki sameiginlega ákvörðun um að skera niður kostnað. Það verður eitthvað að láta undan þegar þau hafa eytt um efni fram.

En sveitarfélögin hafa gert meira, t.d. varðandi grunnskólann, þau hafa nefnilega stóraukið þjónustuna. Það er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir að kröfur um aukna þjónustu eru mjög ríkjandi í þjóðfélaginu vegna þess að borgarinn sér ekki beint að hann er að borga þetta sjálfur. Það er kannski vandinn við þetta allt saman að sífellt eru gerðar meiri kröfur á félagsþjónustu. Ég nefni t.d. að félagsþjónustan í Reykjavík kostar 44 þús. kr. á hvern einasta íbúa í Reykjavík. Það er reyndar það hæsta í landinu. En þetta þýðir fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu nærri því 200 þús. kr. sem hún er að borga til félagsþjónustu í Reykjavík á ári. Það er spurning um hvað menn eru grand og flott í félagslegri þjónustu. Þegar samkeppni myndast á milli sveitarfélaga um að veita bestu þjónustuna getur það orðið dýrt og þá kemur það niður á borgurunum fyrr eða síðar því að það er alltaf einhver sem greiðir.