Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 17:11:13 (2307)

2000-11-28 17:11:13# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[17:11]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki sagt annað en að mér er orða vant að heyra sveitarstjórnarmann í starfi tala í þá veru sem hv. þm. gerði hér áðan. Það getur vel verið að það henti henni að gera það hér nú en ég neita að trúa því að hv. þm. Drífa Hjartardóttir tali í þessa veru heima í héraði eða þegar hún talar við kollega sína, sveitarstjórnarmenn, (Gripið fram í.) að geta haldið því fram að sveitarfélögin hringinn í kringum landið --- það eru auðvitað undantekningar á því sem betur fer --- hafi mikið svigrúm eða ráðrúm til þess að velta því mjög lengi fyrir sér hvort þau þurfi að nýta þessa útsvarshækkun eða ekki. Því miður eru þau bara örfá. Það hefur komið fram ekki eingöngu í umsögnum við umfjöllun þessa máls heldur líka í fjölmiðlum og þar hafa margir sjálfstæðismenn, flokksbræður og flokkssystur hv. þm., ekki dregið af sér.

Þetta er mér algjörlega nýtt að heyra þennan tón frá sveitarstjórnarmönnum en hann er greinilega til staðar. Hann er greinilega til staðar í huga hv. þm. og bæjarstjórnarmanns eða hreppsnefndarfulltrúa, Drífu Hjartardóttur.

Ég er líka þeirrar skoðunar og það kemur mér líka jafnmikið á óvart að hv. þm. telji allt með Guðs blessun varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga þegar kom að tilflutningi grunnskólans. Ég hitti sveitarstjórnarmenn í öllum flokkum sem hafa í raun allt aðra sögu að segja. Menn komast sennilega aldrei að niðurstöðu upp á krónu og aura hvernig þetta gengur. Það er margt sem er erfitt að meta.

Hin nýja námsgagnaskrá er t.d. eitt. Ég rak augun í það t.d. í fjárhagsáætlun meiri hluta bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði að þar á að setja nýjar 20 millj. kr. eingöngu til þess að mæta nýjum ábendingum í þeirri skrá. Það er svona dæmi um þetta. En, Guð minn almáttugur, herra forseti, það er einfaldlega þannig að sveitarfélögin geta ekki meira. Þau verða að fá þessa peninga og það er vont að níðast á liggjandi manni.