Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:32:11 (2317)

2000-11-28 18:32:11# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil svo sannarlega mótmæla því að ég sé að ýkja varðandi stöðu elli- og örorkulífeyrisþega, hvernig þeir hafi verið hlunnfarnir af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Ég vil í því sambandi minna hæstv. ráðherra á, ef það hefur farið fram hjá honum, að hópur aldraðra stóð fyrir framan Alþingishúsið þegar við komum til þings í haust til þess að mótmæla því hvernig ríkisstjórnin hefur farið með lífeyrisþega og hvernig þeir hafa verið hlunnfarnir. Samtök aldraðra lögðu fram gögn í því máli. Það eru gögn sem ég hef notað og stuðst við. Hæstv. ráðherra er þá að segja að fulltrúar Samtaka aldraðra og forsvarsmenn þeirra ýki stöðuna ef hann ber upp á mig slíkan málflutning, þannig að ég mótmæli því auðvitað.

Hæstv. ráðherra ætti líka að íhuga þegar hann er að bera saman stöðuna núna og 1995, hvernig biðlistarnir eftir leiguíbúðum hafa lengst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það voru ekki 2.000 manns á árinu 1995 sem biðu eftir leiguíbúðum og það er verst staddi hópurinn í þjóðfélaginu. Biðlistarnir eftir húsnæði fyrir fatlaða hafa líka lengst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ég er ekkert að ýkja í því sambandi. Tölur um biðlista hjá Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp, hjá Reykjavíkurborg og stærstu sveitarfélögunum í landinu, segja sína sögu. Nýlega kom fram í fjölmiðlum að 300 fjölskyldur voru í algjörri neyð í Reykjavík einni, höfðu ekki þak yfir höfuðið og bjuggu inni á ættingjum.

Þetta er staðan á tímum góðæris í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta eru ekki ýkjur, herra forseti. Þetta er blákaldur raunveruleiki sem fólk sem býr við slík kjör og aðbúnað stendur frammi fyrir. Ég ýki ekki neitt í því sambandi. Þess þarf ekki, herra forseti.