Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:34:23 (2318)

2000-11-28 18:34:23# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:34]

Árni Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það gengur ekki að fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárln. komi hér upp eftir hádegi og gagnrýni ríkisstjórnina fyrir að sýna ekki nægt aðhald í peningamálum, að hún skili ekki nógum hagnaði af ríkissjóði, og að menn úr efh.- og viðskn. og félmn. komi svo hér undir kvöldmat og gagnrýni ríkið fyrir að eyða ekki meiri peningum. Það gengur ekki upp. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir.

Efnislega varðandi nokkur atriði í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það að hækka persónuafsláttinn, halda skattleysismörkunum óbreyttum eða hækka þau, er mjög dýr leið og það þekkir hv. þm. sem er jafnaðarmaður. Það er mjög dýr leið að hækka persónuafsláttinn á alla línuna. Mun skynsamlegra er að fara þá leið sem lögð er til í breytingartillögum við frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, þ.e. að hækka við þá hópa sem þurfa á hækkun að halda, barnafólk og það fólk sem minnst má sín.

Í annan stað vita allir sem hafa sett sig inn í það að farið hefur verið í kringum núgildandi reglur um frestun á skattlagningu á söluhagnaði. Menn hafa framlengt þessi tvö ár, ár eftir ár og aldrei borgað neinn skatt. Í sjálfu sér er því þessi tillaga um 10% sett fram til þess að bregðast við því.

Af því hér er talað um skuldir heimilanna þá vil ég í lokin spyrja: Hver er skoðun hv. Jóhönnu Sigurðardóttur á framferði lífeyrissjóðanna og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar (Forseti hringir.) í því að spenna upp verðbólguna, lækka gengi krónunnar og þeim gengdarlausu fjárfestingum erlendis sem hækka (Forseti hringir.) afföll í húsbréfakerfinu? Bera menn enga ábyrgð þar?