Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 18:40:56 (2321)

2000-11-28 18:40:56# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[18:40]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Á árinu 1995, áður en þessi ríkisstjórn tók við, var ótekjutengdi hluti barnabótanna að meðaltali 40.000 kr. með hverju barni. Eftir þrjú ár ætlar Framsfl. að skila til baka 2 milljörðum sem hafa verið teknir af barnafjölskyldum frá árinu 1995. Ótekjutengdi hlutinn eftir að frv. ríkisstjórnarinnar hefur verið samþykkt verður aðeins 33.000 kr. með börnum upp að sjö ára aldri en var 40.000 kr. að meðaltali á árinu 1995 með börnum upp að 16 ára aldri. Framsfl. lofaði því að greiddar yrðu 30.000 kr. með öllum börnum, kæmist hann til valda. (ÁGunn: Nú eru komnar 33.000 kr. og kjörtímabilið hálfnað.) Ég ætla að rifja upp út af þessu frammíkalli um að komnar eru 33.000 kr. og kjörtímabilið hálfnað, að formaður hv. þm., hæstv. utanrrh. sagði aðspurður í sjónvarpsviðtali að ekki væri von á meiru á þessu kjörtímabili að því er varðar barnabæturnar þannig að með því verður auðvitað grannt fylgst. Eftir þrjú ár þegar ríkisstjórnin hefur skilað þessum 2 milljörðum sem hún tók af barnafjölskyldum sl. fjögur ár --- hún skilar því til baka á þremur árum --- erum við ekki einu sinni komin í þá stöðu sem barnafjölskyldur voru í miðað við hvað þær fengu úr ríkissjóði þegar þessi ríkisstjórn tók við. Ég mundi fara varlega, herra forseti, í að tala um það sem ríkisstjórnin ætlar að gera fyrir barnafjölskyldurnar.