Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:54:20 (2348)

2000-11-28 21:54:20# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem kemur fram í máli hv. þm. Gunnars Birgissonar. Ég tel hins vegar að það hefði átt að ganga lengra í kjarabótum til handa barnafólki og láta ekki sitja við það eitt að skila aðeins hluta af því sem tekið hefur verið af barnafólki á liðnum árum.

Hitt atriðið sem ég vildi gera athugasemd við er gagnrýni hv. þm. á ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um fjárhag sveitarfélaga. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á í ræðu sinni að fjárhagur þeirra er afar mismunandi. Sum standa frammi fyrir geigvænlegum vanda og þá ekki síst vegna félagslega húsnæðiskerfisins. Mörg sveitarfélög sitja uppi með innlausnarkvaðir á félagslegt húsnæði sem þær geta síðan ekki losnað við. Ég lít svo á, og tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að ríkinu og ríkissjóði ber að hlaupa undir bagga því að þetta á rætur að rekja til þeirrar stefnu sem við höfum rekið í húsnæðismálum á liðnum árum. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að hlaupa undir bagga. Á þetta lagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon áherslu í máli sínu.