Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:33:03 (2362)

2000-11-28 23:33:03# 126. lþ. 33.3 fundur 200. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (vatnsgjald) frv. 143/2000, Frsm. minni hluta ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:33]

Frsm. minni hluta félmn. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 362, 200. mál. Það er nefndarálit minni hluta félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

Í ljósi þess að vatnsgjald er lögum samkvæmt þjónustugjald lýsir minni hlutinn yfir andstöðu sinni við það að álagning þess skuli bundin tilteknum hundraðshluta af fasteignamati. Í ljós hefur komið að þessi hundraðshluti nægir ekki öllum sveitarfélögum til að standa undir kostnaði við veitta þjónustu, en jafnframt að önnur sveitarfélög nýta þetta hámark án tillits til kostnaðar. Þar með er gjaldið orðið skattur.

Ef vatnsgjaldið á að flokkast sem þjónustugjald sem sé eingöngu ætlað að standa straum af fyrrnefndum kostnaði sveitarfélaganna og megi því ekki fela í sér hærri álögur en sem honum nemur telur minni hlutinn eðlilegt að sú hámarksheimild sem sveitarfélögunum er sett við ákvörðun upphæða vatnsgjalds í lögum um vatnsveitur, nr. 81/1991, verði felld brott en með því munu tekjur sveitarfélaganna af vatnsgjaldi ávallt standa undir áðurnefndum kostnaði.

Leggur minni hlutinn til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 1. gr. C-liður greinarinnar orðist svo: Í stað orðanna ,,allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni`` í 4. mgr. kemur: stofnkostnaði og kostnaði af rekstri vatnsveitna.

Undir þetta nefndarálit rita sú sem hér stendur og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir.