Endurskoðun laga um leigubifreiðar

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 14:15:12 (2389)

2000-11-29 14:15:12# 126. lþ. 34.4 fundur 234. mál: #A endurskoðun laga um leigubifreiðar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn sem er vissulega tímabær. Í þingskjölum frá samgn. er lagt til að heildarendurskoðun löggjafar um leigubíla verði hraðað og er ljóst að fyrir því hljóta að vera ástæður. Í ljósi þess er fyrirspurnin eðlileg.

Frá því að ég kom í ráðuneytið hefur málefni leigubíla oft borið á góma. Þó hafði verið gengið frá því nokkru áður að stjórnsýsluleg staða svokallaðrar umsjónarnefndar leigubíla sem hefur með höndum atvinnumál leigubílstjóra hafði verið styrkt verulega. Meira að segja hafði verið gengið svo langt að í einstöku tilfellum eru ákvarðanir hennar ekki kæranlegar nema fyrir dómstólum.

Þrátt fyrir þetta og mjög gott starf þeirra sem sitja í umsjónarnefnd virðist framkvæmd laganna kalla á sífelldan núning og jafnvel vandræði. Nokkur atriði mætti nefna. Stjórn og umsýsla kringum atvinnuréttindi hefur aukist sífellt, m.a. vegna aukinna formkrafna, og hún orðið íþyngjandi fyrir alla aðila og kostnaðarsöm fyrir ríkið. Kerfið er stíft og illa sveigjanlegt og flestum er í fersku minni vandræðagangurinn í Leifsstöð í Sleipnisverkfallinu. Mjög skiptar skoðanir eru um hvort framboð leigubíla að kvöldlagi og um helgar á höfuðborgarsvæðinu er forsvaranlegt. Sífelldar erjur eru á milli einstakra félaga leigubílstjóra sem varla eru stéttinni til framdráttar þegar til lengri tíma er litið. Svo virðist sem flestir vilji breytingar á núverandi kerfi en mjög mismunandi er hversu langt menn vilja ganga. Sumir vilja þetta alveg frjálst en aðrir vilja einfalda kerfið og byggja frekar á auknum kröfum til menntunar leigubílstjóra og auknum kröfum til leigubílastöðva. Ég er sammála því að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin um leigubifreiðar frá grunni. Ég hef nú þegar látið hefja vinnu í ráðuneytinu til að svo megi verða og geri ég ráð fyrir því að eiga þar bæði samstarf við sveitarfélög og einnig fulltrúa frá þeim aðilum sem stunda leigubílaakstur en þar er um að ræða fleiri en eitt félag. Þannig standa málin.