Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 16:24:20 (2484)

2000-11-30 16:24:20# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[16:24]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ekkert tala um það sem Alþfl. gerði á sínum tíma. Ég skal bara tala um það sem við höfum verið að gera á þessu kjörtímabili, þ.e. að við höfum verið að lækka þjónustugjöld, eins og ég sagði áðan, við höfum raunverulega verið að lækka þjónustugjöld. Það skiptir einmitt þann hóp máli sem hv. þm. kom inn á áðan. Ég held að hann geti ekki hrakið það að þjónustugjöld hafa lækkað. Endurgreiðslureglugerðir, sem ekki voru til fyrir þá sem minnst hafa, voru ekki í gangi fyrr en í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Þetta held ég að hv. þm. verði líka að hlusta á. Ég hef aldrei sagt að allir hafi það gott en við erum að koma til móts við það fólk. Hv. þm. sagði: Er það rétt eða rangt að lyf hafi hækkað allt upp í 120%? Ég ætla ekki að svara því hvort það sé rétt eða rangt en ég ætla að segja hv. þm. hvað um er að ræða. Í þessu tilviki er verið að ræða um hjartalyf. Hv. þm. getur bara reiknað það sjálfur að skammturinn á hjartalyfjum sem örorkulífeyrisþegi eða ellilífeyrisþegi fær hefur hækkað um 50 kr. á mánuði, hæst upp í 80 kr. á því tímabili sem hv. þm. talaði um. Það eru ekki háar upphæðir. Hv. þm. getur reiknað það út að á þriggja mánaða tímabili, sem er venjulegur skammtur, þá eru það tvær ferðir með strætisvagni.