Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 17:30:09 (2639)

2000-12-04 17:30:09# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[17:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekkert um að það eru skýringar á þessu öllu saman. Það eru skýringar á því að það þarf að koma við eina umræðu með beiðni um viðbótarfjármagn til Hannover-sýningarinnar upp á 18 milljónir og síðan aftur upp á 20 milljónir. Ég efast ekkert um að það eru skýringar á þessu. Ég efast heldur ekkert um að það eru skýringar á því að menn ætla að verja 800 millj. kr. til sendiráðskaupa í Tókíó. Auðvitað eru skýringar á þessu. Skýringin kann að vera sú að menn vilja byggja á fínasta og flottasta stað og halda sig í svona hámarkssnobbi.

En þegar hv. þm. talar um að það sé vafasamt að bera þessa liði saman, sendiráðsbyggingu í Tókíó við framlag til öryrkja þá mótmæli ég því. Þetta sýnir einfaldlega verðmætamat sem er brenglað og ranga forgangsröðun hjá þessari ríkisstjórn. Það er það sem það sýnir og nauðsynlegt að draga það fram í dagsljósið.

Og síðan varðandi það að verið sé að auka framlag til velferðarmála almennt þá er það nú bara spurning um reikningsaðferðir og hvernig menn nálgast það. Staðreyndin er sú að veltan í samfélaginu hefur aukist stórlega á undangengnum árum. Við höfum verið að afla betur, Íslendingar, og þá þurfum við í því ljósi að skoða hlutfallstölur, þ.e. hvort við erum að auka hlutfallslega framlag til velferðarmála frá því sem áður var. Og þegar það dæmi er gert upp koma því miður ekki fram fagrar tölur fyrir ríkisstjórnina og því síður fyrir þjóðina.