Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:45:59 (2703)

2000-12-05 14:45:59# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frv. þetta er afar einfalt í sniðum og ekki nema tvær greinar. Þar af er önnur greinin gildistökugrein.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja þingmenn um að gefa hljóð í salnum og biðja hv. þm. um að tala örlítið hærra.)

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að tala örlítið hærra. Ég hygg þó að ekki sé ástæða til þess fyrir hv. þm. að fara í mikla samkeppni við aðra hv. þm. í salnum um hver tali hæst.

Varðandi frv. vil ég geta þess að það er í tveimur greinum. Þar af er önnur gildistökugrein. Hin er efnisgrein og þar er fjallað um það að lækka eigi skatthlutfall einstaklinga í tekjuskatti. Mál þetta tengist frv. til laga sem hér hefur verið afgreitt um breytta tilhögun á tekjustofnum sveitarfélaga. Meiri hlutinn vekur athygli á þeirri samtengingu. Í því frv. var gert ráð fyrir því að sveitarfélög hefðu heimild til að hækka útsvarsprósentu um allt að 1% í áföngum. Ríkið hyggst með þessu frv. koma eilítið til móts við skattgreiðendur og lækka tekjuskattshlutfallið um 0,33% á móti.

Málflutningur stjórnarandstæðinga í dag og undanfarna daga hefur gengið út á að ekki sé nægilegt aðhald í ríkisrekstrinum, of miklu sé eytt og að ekki sé aflað nægra tekna. Nú liggur fyrir að sveitarfélögin hafa fengið heimild til að hækka útsvar til þess að bregðast við því að tekjur skortir á þeim bæjum til að standa undir auknum útgjöldum. Að hluta hefur útgjaldaaukning sveitarfélaganna komið til vegna aukinna verkefna sem hafa verið flutt til þeirra frá ríkinu en einnig vegna þess að umfang starfsemi þeirra hefur einfaldlega aukist. Út frá öllum eðlilegum hagstjórnarsjónarmiðum og eðlilegum sjónarmiðum í ríkisrekstri er því eðlilegt að sveitarfélögin skattleggi einfaldlega fyrir þeim útgjöldum sem þau hyggjast standa fyrir. Ríkið ætti ekki að koma sérstaklega til móts við það nema þegar flutt hafa verið verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Að svo miklu leyti sem sveitarfélögin auka heildarútgjöld opinberra aðila væri eðlilegt að standa undir því með hækkun á skatttekjum sveitarfélaganna.

Ríkisstjórnin hefur samt lagt til með þessu stjfrv. að lækka tekjuskattinn á móti um 0,33%. Út frá þeim hagstjórnarsjónarmiðum sem ég gat um áðan og í ljósi gagnrýni stjórnarandstöðunnar á afgreiðslu fjárlagafrv. er kannski of í lagt og ætti í raun ekki, út frá þeirri gagnrýni, að lækka tekjuskatt. Ríkisstjórnin hefur hins vegar viljað koma til móts við skattgreiðendur, undir það hefur meiri hlutinn í efh.- og viðskn. tekið og leggur því til að þetta frv. verði samþykkt óbreytt.