Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 16:23:07 (2711)

2000-12-05 16:23:07# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er ég sammála því sem meðal annarra framkvæmdastjóri ASÍ hefur stundum haldið fram að á þenslutímum eigi ekki að lækka skatta. Það er almennt viðhorf sem ég get tekið undir.

En ég minnist þess ekki, herra forseti, að framkvæmdastjóri ASÍ hafi talað um nauðsyn þess eða að það væri yfir höfuð réttlætanlegt að lækka skattleysismörkin. Þau frv. sem við erum að fjalla um hér snúast ekki um að lækka skatta, þau snúast um að hækka skatta. Menn hafa verið að ræða um að útsvarshækkunin standist á við tekjuskattslækkunina. Menn eru að tala um óbreytt ástand, óbreytt ástand miðað við þær forsendur sem voru ríkjandi þegar þessir aðilar gengu til kjarasamninga. Í kjölfarið sá ríkisstjórnin ástæðu til þess að koma fram með sérstaka yfirlýsingu varðandi skattleysismörkin.

Um það erum við að ræða hér. Við erum að ræða um auknar skattálögur á láglaunafólk. Við erum að krefjast þess að skattleysismörkin fylgi launaþróun og taki mið af skattkerfisbreytingum þannig að þau lækki ekki. Út á það gengur umræðan fyrst og fremst.