Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 16:58:48 (2715)

2000-12-05 16:58:48# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil rifja það upp fyrir hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að frá 1995, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun, hefur kaupmáttur launafólks aukist um liðlega þriðjung og atvinnuleysi nánast horfið. Það eru góð verk gagnvart barnafólki og varla er hægt að hugsa sér betri frammistöðu en að geta útvegað fólki vinnu og séð til þess að kaup geti hækkað verulega á skömmum tíma.

Ég tek eftir því að hv. þm., talsmaður Samfylkingarinnar í málinu, talar fyrst og fremst gegn því að skattar hækki vegna þessa frv. Sjónarmið hans er að ríkið eigi að lækka tekjuskattinn jafnmikið og sveitarfélögin hafa möguleika á að hækka útsvarið. Hann talar því gegn skattahækkun og það er afstaða út af fyrir sig og liggur alveg ljós fyrir. Ég geri ekki athugasemdir við að menn hafi slíka afstöðu.

[17:00]

Ég bendi hins vegar á að einn helsti talsmaður Alþýðusambandsins, framkvæmdastjóri sambandsins, hefur ekki þessa afstöðu. Hann tók ábyrga afstöðu þegar hann ræddi efnahagsmál á haustdögum og benti þá m.a. á skattahækkun sem úrræði fyrir stjórnvöld til þess að halda aftur af þenslu og verðbólgu. Og framkvæmdastjóri ASÍ er nú enginn venjulegur maður, sérstaklega ekki í Samfylkingunni. Ég man ekki betur en að hann hafi sent Samfylkingunni blómvönd í nafni Alþýðusambandsins af því tilefni að stjórnmálaflokkurinn var stofnaður þannig að hann er nú nokkur þungavigtarmaður í þessum samtökum.