Fjáröflun til vegagerðar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:06:50 (2770)

2000-12-05 23:06:50# 126. lþ. 40.10 fundur 283. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (þungaskattur) frv. 165/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:06]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í máli hv. þm. sem mig langar að gera að umtalsefni. Í fyrsta lagi spurningin um það af hverju segir í frv. að þetta leiði til 300 millj. kr. lækkunar en í brtt. fjmrn. við fjárlagafrv. næsta árs 205 millj. kr.

Skýringin á því er sú að í frv. sem við erum með til meðferðar er talað um 300 millj. kr. árlega lækkun. En vegna þess að frv. tekur ekki gildi fyrr en á næsta gjaldtímabili, þ.e. 11. febr., koma ekki nema tvö gjaldtímabil eða tvær greiðslur samkvæmt nýju lögunum inn á árið 2001 og þess vegna eru þetta 205 millj. á næsta ári, þ.e. 2/3 u.þ.b., tvö gjaldtímabil af þremur, en á heilu ári þaðan í frá eða á tólf mánaða tímabili frá 11. febrúar nk. eru þetta 300 millj. Þarna er ekki mismunur ef að er gáð sérstaklega, ég kynnti mér það í morgun þegar ég rak augun í þessar sömu tölur.

Síðan aðeins um bílana sem aka ekki á mæli heldur greiða fastan þungaskatt. Þingmaðurinn lét þess getið að veruleg tekjuaukning hefði orðið af slíkum bílum og það er vissulega rétt. En það er ekki vegna þess að það sé búið að hækka á þeim gjaldið heldur vegna þess að þeim hefur fjölgað stórkostlega.

Þessum bílum fjölgaði frá fyrra gjaldtímabili 1999 úr 10.472 í 14.572 á seinna gjaldtímabili árið 2000, þ.e. á einu og hálfu ári fjölgaði þessum bílum um 40%. Það segir sig sjálft að það skilar náttúrlega meiri tekjum í ríkissjóð en á móti minnka væntanlega þær tekjur sem við hefðum haft af þessum bílum ef þetta hefðu verið bensínbílar. Þetta er því ekki nettótekjuaukning sem hægt er að reikna með af þessum sökum, ekki nema í þeim mæli sem þetta er hrein viðbót. Margir hafa verið að skipta úr bensínvélum yfir í dísilbíla á þessu tímabili. Þetta er skýringin á því og það sést á tillögunni um lækkaða fjárhæð í fjárlögum að hér er um að ræða raunverulega lækkun, þessar 205 millj. Það er ekki um það að ræða að annar stofn bæti þetta upp eins og álagningin á bíla með fast gjald í þungaskatti. Reyndar hefur það verið þannig að tekjur af bifreiðum sem greiða þungaskatt eftir mæli hafa verið nokkru lægri á þessu ári en áætlanir manna gerðu ráð fyrir.

Síðan nokkuð almennt um þetta mál. Við munum það náttúrlega að mikið hefur verið hringlað með þessa gjaldtöku undanfarin þrjú þing, meira en eðlilegt er. Það er öllum til ama í þessari grein og óþurftar, vil ég leyfa mér að segja. Þetta hefur stafað af því að Samkeppnisstofnun hefur gert athugasemdir fyrst við hið upphaflega afsláttarkerfi og síðan við nýtt afsláttarkerfi sem var búið til eftir það vegna þess að talið var að þarna væri ákveðnum ökutækjum mismunað gagnvart öðrum, og er ástæðulaust að rekja það frekar hérna. En það var vitað að sú breyting sem síðast var gerð, þ.e. á síðasta vori, hafði það í för með sér að endurdreifa byrðinni af þessum skatti innan þess flota bíla sem á annað borð borgar þennan skatt, þungaskatt samkvæmt mæli. Það var alveg vitað að þeir sem nutu góðs af gamla fyrirkomulaginu, þ.e. 100 þús. kr. fastagjaldi og svo afslætti sem var þess eðlis að þungaskatturinn breyttist í núll eftir 95 þús. km akstur, mundu þurfa að borga meira. Aftur á móti aðrir aðilar sem áttu bíla sem lítið var ekið en borguðu fast 100 þús. kr. gjald högnuðust sumir mjög verulega á þessu, svokallaðir bryggjubílar og bílar sem bændur eiga sem ekki er mikið ekið o.s.frv., þannig að það var með ýmsu móti. En þeir sem keyra á lengstu leiðunum og keyrðu mest fóru náttúrlega verr út úr þessu.

Ég get svo ekkert fullyrt um það, ég hygg reyndar að þingmaðurinn hafi mismælt sig þegar hún sagði að þarna hefði orðið 30--40% hækkun á vöruverði. Það er auðvitað ekki þannig. Það getur vel verið að þungaskatturinn hafi í einhverjum tilfellum hækkað um einhverja tugi prósenta en þungaskatturinn er ekki eini liðurinn í flutningskostnaði og flutningskostnaður er auðvitað ekki eini liðurinn í vöruverðinu. Reyndar hafa menn reiknað það út að ef þetta er fært út á hverja flutta og selda einingu í vöru er náttúrlega um miklu minni prósentuhækkanir að ræða en það getur verið nógu slæmt fyrir því fyrir þá aðila úti á landsbyggðinni sem sitja uppi með slíkar hækkanir.

Ég held, herra forseti, að við séum í bili komin að ásættanlegri niðurstöðu varðandi þennan þungaskatt. Með því að lækka hann núna um 10% er verið að koma myndarlega til móts við þá aðila sem stunda atvinnurekstur og borga þennan skatt. Ég tel að búið sé þá að finna þarna ákveðna niðurstöðu eða málamiðlun sem menn geti sætt sig við í bili. Hins vegar væri æskilegast ef við gætum komið þessari gjaldheimtu yfir í annan farveg og annað form, þ.e. yfir í olíugjald. Ekki er búið að gefa upp alla von um að það sé hægt og er unnið að því á vegum fjmrn. að rannsaka það á nýjan leik, sérstakur vinnuhópur sem hefur fengið það verkefni að líta enn á ný á það mál.

En að öðru leyti tel ég að þingheimur ætti að geta sameinast um þetta frv. sem hér liggur fyrir.