2000-12-06 00:43:03# 126. lþ. 40.16 fundur 314. mál: #A barnalög# (ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[24:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að frv. er komið fram frá hæstv. ráðherra um sérfræðiráðgjöf til lausnar málum í umgengnis- og forsjárdeilum en við þingmenn Samfylkingarinnar höfum lagt fram bæði frumvörp og till. til þál. í þessa veru undanfarin ár. Fyrst var lögð til þessi leið í till. til þál. sem við, sú sem hér stendur og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, lögðum hér fram a.m.k. í tvígang á síðasta kjörtímabili en það var till. til þál. um að bæta réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína. Þar var einmitt þessi leið lögð til ásamt fleiri leiðum til þess að tryggja börnum umgengni við báða foreldra sína.

Fram hefur komið að mjög mikilvægt er að leita allra leiða til þess að tryggja þennan rétt. Þetta er stórt vandamál hér á landi því að yfir 500 heimili leysast upp á ári hverju vegna hjónaskilnaða og þá er óvígð sambúð ekki talin með og síðan bætast við öll börn sem eru fædd utan hjónabands eða sambúðar en greidd eru meðlög með líklega hátt í fimmtán þúsund börnum hér á landi.

[24:45]

Það er mikilvægt að börn missi ekki samband við annað foreldrið þó að til skilnaðar komi. Ég minni á að rétturinn til samveru með báðum foreldrum telst til grundvallarmannréttinda barna. Á þeim rétti barnanna er tekið í mannréttindasáttmála Evrópu sem við erum aðilar að, ég nefni þar 8. gr. Slíkum réttindum eru einnig gerð skil í 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þar segir að barn sem skilið hefur verið frá foreldri sínu eða foreldrum eigi rétt á að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði reglulega, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.

Í þáltill. sem ég ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni lagði fram í tvígang sem síðan var vísað til ríkisstjórnarinnar er þessi leið nefnd sérstaklega. Þar segir:

,,Nauðsynlegt er að koma upp hér á landi vandaðri skilnaðarráðgjöf í tengslum við hjónaskilnaði og sambúðarslit. Hægt er að setja sem skilyrði fyrir útgáfu skilnaðarleyfis eða staðfestingu forsjárákvörðunar að foreldrar hafi sótt t.d. 3--5 ráðgjafartíma, þar sem lögfræðingar og félagsráðgjafar eða sálfræðingar aðstoða foreldra við að ganga frá forsjár- og umgengnismálum. Þetta er fyrirbyggjandi úrræði sem hefur reynst vel annars staðar, m.a. í Noregi, og er talið að slíkt fyrirkomulag spari einstaklingum og samfélaginu í heild bæði orku, tíma og fjármuni.``

Því næst er vísað í skýrslu félmrn.:

,,Í niðurstöðum áðurnefndrar skýrslu félmrn. um rannsókn á högum barnafjölskyldna kom fram að brýn þörf væri á endurgjaldslausri ráðgjöf fyrir fólk í skilnaðarhugleiðingum.``

Í umsögn frá Félagi einstæðra foreldra sem fylgdi þessu þingmáli kom einnig fram að eitt viðtal við báða foreldra gæti verið árangursríkt til að eyða spennu milli þeirra. Í þeirri umsögn kemur einnig fram að deilur foreldra snúast oftar um óuppgerðar tilfinningar en velferð barnanna. Ég get þannig ekki annað en fagnað því að hæstv. ráðherra skuli hafa lagt fram frv. þar sem á að koma á þessari sérfræðiráðgjöf.

Komið hefur fram að þar sem þessi leið er farin hefur þetta verið til bóta, t.d. í Noregi. Fyrir þinginu liggur frv. í þessa veru þó að efnisgreinin sé ekki eins orðuð og í frv. hæstv. ráðherra. Engu að síður er þar lagt til að taka upp sambærilega ráðgjöf. Það mál hefur reyndar lægra málsnúmer og er enn órætt í þinginu en mun líklega fara til allshn. Ég geri hins vegar ráð fyrir að mál ráðherra verði samþykkt og ráðgjöfinni komið á.

Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki endurgjaldslaus ráðgjöf sem þar yrði boðið upp á. Ég sé að í umsögn fjmrn. um þetta frv. er gert ráð fyrir að það muni kosta um 1 millj. kr. þó gert sé ráð fyrir að þetta muni kosta mun meira þegar ráðgjöfin verður veitt víðar, t.d. á Akureyri og annars staðar þar sem slík ráðgjöf er sem stendur ekki í boði.

Ég hefði líka viljað spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hennar til hugmyndar sem við höfum margoft lagt fram, þingmenn Samfylkingarinnar, í tengslum við tillögur okkar um slíka sérfræðiráðgjöf, að barni verði skipaður talsmaður. Hér er lagt til að barni skuli boðin sérfræðiráðgjöf þegar umgengnis- og forsjármál eru til umfjöllunar. Ég spyr hæstv. ráðherra hver afstaða hennar sé til talsmannshugmyndarinnar. Við höfum lagt til að samhliða sérfræðiráðgjöf sé það ein leið til viðbótar til að tryggja barni umgengni við báða foreldra sína að því sé skipaður talsmaður til að gæta hagsmuna þess þegar ágreiningur verður um umgengni við barnið. Sá talsmaður gæti orðið milligöngumaður foreldranna annars vegar og síðan foreldra og barns. Hlutverk talsmannsins yrði fyrst og fremst að gæta hagsmuna barnsins og tryggja því umgengni við forsjárlaust foreldri eða forsjárforeldri sem það býr ekki hjá.

Hugmyndin um talsmann barna í forsjármálum hefur vakið athygli m.a. erlendis þar sem hún hefur verið kynnt og verið talin góð leið. Í lögum eru ákvæði um slíkan talsmann í barnaverndarmálum en þarna yrði skipaður talsmaður í sambandi við umgengnis- og forsjármál. Sú hugmynd liggur fyrir í þinginu í óræddu frv. frá okkur þingmönnum Samfylkingarinnar. Ég er 1. flm. að því og tel að mikill akkur væri í að slíkt ákvæði kæmi inn í lög ásamt sérfræðiráðgjöfinni.

Í 2. gr. frv. hæstv. ráðherra er ákvæðið um dagsektirnar víkkað, þ.e. að það snúi ekki eingöngu að foreldrum heldur fleirum og ekki nema jákvætt að sú breyting skuli gerð þó að sérfræðingar hafi talið dagsektarákvæði frekar máttlaus. Ýmis sjónarmið mæla gegn beitingu þess, t.d. auknar fjárhagsbyrðar einstæðs foreldris sem lendir í því að greiða dagsektir. Það eykur aðstöðumun barna einstæðra foreldra og barna sem búa hjá báðum foreldrum sínum. Einnig er það álit ýmissa fagaðila að dagsektir séu engin trygging fyrir því að foreldrar láti af tálmunum. Séu brot á umgengnisrétti forsjárlausra foreldra við börn sín síendurtekin særir það hins vegar réttlætiskennd þeirra. Úrræðið þykir þannig frekar máttlaust en engu að síður er jákvætt að það skuli vera víkkað til fleiri aðila, t.d. ömmu og afa, eins og hæstv. ráðherra nefndi hér í framsögu sinni.

Herra forseti. Ég vildi bara, þar sem það hefur verið mikið baráttumál mitt að koma á þessari ráðgjöf, fagna því að hæstv. ráðherra skuli koma þessu máli áleiðis í frv. Ég hefði gjarnan viljað sjá talsmannshugmyndina koma einnig fram og ég spyr út í hana. Sömuleiðis, þar sem þess er getið í athugasemdum við lagafrv. að enn sé nokkuð í land við að endurskoða barnalögin og að þeirri vinnu verði ekki lokið á næstunni, vildi ég spyrja hæstv. ráðherra, herra forseti: Hvenær gerir hæstv. ráðherra ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki þannig að ný eða endurskoðuð barnalög komi inn í þingið?

Það er mikilvægt, herra forseti, að réttur barna til umgengni við báða foreldra verði tryggður í lögum og að sem flestum leiðum verði komið í lög til að tryggja þann rétt. Reyndar er bent á fleiri leiðir í þáltill. þeirri sem vísað var til ríkisstjórnarinnar, til að hafa hliðsjónar þegar barnalögin yrðu endurskoðuð og þessi mál öll.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Ég fagna því að hér sé komið fram frv. og þessi barátta hafi a.m.k. skilað þeim árangri að það verði að lögum á næstunni.