2000-12-06 00:54:50# 126. lþ. 40.16 fundur 314. mál: #A barnalög# (ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[24:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á barnalögum. Í 1. gr. segir:

,,Sýslumaður skal bjóða aðilum umgengnis- og forsjármála sérfræðiráðgjöf til lausnar máli. Tilgangur ráðgjafar er að aðstoða aðila við að finna lausn máls með tilliti til þess sem er barni fyrir bestu. Sýslumaður skal einnig bjóða barni, sem náð hefur tólf ára aldri, ráðgjöf og getur einnig boðið yngra barni ráðgjöf, ef hann telur það þjóna hagsmunum þess.``

Herra forseti. Hér er ágætt mál á ferðinni og fagnaðarefni að það skuli lagt fram. Ég vil þó leyfa mér að spyrja hæstv. dómsmrh. aðeins nánar út í orðalagið ,,sýslumaður skal``: Verður skylda við öll sýslumannsembætti landsins, enginn þar undanskilinn, að veita þessa þjónustu?

Í öðru lagi er bæði í frv. og grg. gert ráð fyrir að sérfræðingar í fjölskylduráðgjöf og sálfræðingar eða félagsráðgjafar verði fengnir til starfans. Þeir séu ráðnir af sýslumanni og ráðgjöfin veitt við embætti hans. Það er í sjálfu sér afar eðlilegt að ráðnir séu sérfræðingar sem þekkja til slíkra mála en þá er afar mikilvægt að allir sýslumenn geti ráðið sérfræðinga, hafi ráðningarsamning við sérfræðinga til að annast þessi mál. Ég er í raun að árétta að svo verði um búið að sýslumönnum verði ekki mismunað í að geta veitt þessa þjónustu, fullkomna sérfræðiþjónustu eins og lagt er til. Ég vil leggja afar mikla áherslu á að það verði öllum ljóst.

Ég tek mjög undir athugasemdir við einstakar greinar. Í athugasemd við 1. gr. segir t.d.:

,,Ágreiningsmál foreldra um umgengni og forsjá barna eru ákaflega viðkvæm og vandmeðfarin og gefur augaleið hve mikilvægt það er, bæði fyrir foreldra og börn, að á slíkum málum finnist farsæl lausn.``

Að lokum, herra forseti, langar mig að inna frekar eftir kostnaðarhlið málsins. Ég fæ ekki séð að þessi ráðgjöf eigi ótvírætt að vera foreldrum og börnum að kostnaðarlausu. Er það ótvírætt að ekki verði krafist einhvers konar þjónustu- eða komugjalds eða hvað maður á að kalla það fyrir slíka ráðgjöf? Mér finnst það ekki ótvírætt þó sagt sé að þjónustuna eigi að bjóða, enda hefur hugtakið ,,að bjóða`` verið teygt þannig að ekki er víst að það sé alveg ókeypis.

Ég legg áherslu á að þessi þjónusta skuli boðin við öll sýslumannsembættin eins og lögin gera ráð fyrir og þeim sem hennar njóta fullkomlega að kostnaðarlausu, að það séu skýr ákvæði laganna. Það verður þá a.m.k. að koma fram ef svo er ekki.

Herra forseti. Viljinn og meiningin á bak við þetta frv. er virkilegt fagnaðarefni. Ég óska þess innilega að það verði að lögum og eftir þeim verði unnið í reynd.