2000-12-06 01:03:46# 126. lþ. 40.16 fundur 314. mál: #A barnalög# (ráðgjöf í umgengnis- og forsjármálum) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[25:03]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún hefur komið með. Ég vek athygli á mishljóðan á milli þess sem stendur í 1. gr. þar sem segir: ,,Sýslumaður skal bjóða aðilum umgengnis- og forsjármála sérfræðiráðgjöf ...``, en í umsögn fjmrn. eða fjárlagaskrifstofu stendur: ,,Frumvarp þetta felur í sér að sýslumönnum verði heimilað að bjóða sérfræðiráðgjöf ...``, og ,,heimilað`` þýðir ekki að þeim sé það skylt. Þess vegna var ég að benda á þetta, herra forseti, að orðið ,,heimilað`` er miklu veikara, bæði hvað varðar skylduna til þess að bjóða þessa þjónustu og eins þá líka hvernig gjaldtakan fer fram. Að sjálfsögðu er fylgiskjal fjmrn. hluti af þessu frv. og lögskýringargagn með frv. Því er nauðsynlegt að mínu mati að það sé fullkomin samhljóðan með svo mikilvægu orðalagi eins og hér er.