2000-12-06 01:25:31# 126. lþ. 40.19 fundur 319. mál: #A sjóvarnaáætlun 2001--2004# þál., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[25:25]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sjóvarnaáætlun sem er 319. mál á þskj. 401.

Lög um sjóvarnir, nr. 28/1997, gengu í gildi 1. jan. 1998 og eru fyrsta lagasetningin á því sviði. Tilgangur laganna er að koma fastara skipulagi á sjóvarnir og þátt ríkisins í þeim framkvæmdum. Á fjárlögum hvers árs undanfarna áratugi hefur verið fjárveiting til sjóvarna á ýmsum stöðum á landinu. Framkvæmdin hefur verið þannig að fjárln. hefur gert tillögur um fjárveitingu til einstakra staða að fengnum tillögum frá Siglingastofnun Íslands, áður Hafnamálastofnun ríkisins. Sveitarfélög hafa áður sent skriflegar óskir til Siglingastofnunar Íslands og einstöku tilvikum aðrir aðilar.

Fyrir gildistöku laga um sjóvarnir hafði myndast nokkur hefð um vinnubrögð. Í langflestum tilvikum voru sjóvarnir fjármagnaðar að öllu leyti með fjárveitingu ríkissjóðs þótt einstaka dæmi séu um framlög sveitarfélaga eða landeigenda. Hér er átt við kostnaðinn við sjálfa aðalvörnina en mörg dæmi eru um að sveitarfélög hafi séð um uppgræðslu innan við grjótvörnina.

Með hinum nýju lögum eru tekin af öll tvímæli um að skilyrði fyrir ríkisframlagi til sjóvarna sé að mannvirki eða byggðasvæði séu samkvæmt samþykktu skipulagi. Þar sem dæmi eru um að koma þurfi upp sjóvörnum utan samþykkts skipulags eru teknar sjálfstæðar ákvarðanir hverju sinni í samráði við sveitarstjórnir.

Að lokum eru ákvæði um að leggja skuli mat á þörf fyrir sjóvarnir við gerð aðalskipulags. Bera þarf saman kostnað við sjóvarnir og það hagræði sem af þeim gæti hlotist annars vegar og hins vegar þann sparnað sem leiðir að því að færa byggðasvæði til. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að hægt er að draga úr hættu á tjóni af sjávargangi með því að skipuleggja t.d. strandbyggð þannig að hún sé í tiltekinni lágmarksfjarlægð frá sjó. Auðvitað er hugsanlegt að atvinnurekstur krefjist meiri nýtingar lands út að sjó og þá vakna spurningar um hver eigi að bera kostnaðinn af því.

Þetta er fyrsta fjögurra ára sjóvarnaáætlunin sem lögð er fram sem þáltill. Í meginatriðum er byggt á mati á sjóvörnum hjá þeim sveitarfélögum sem sendu inn erindi en einnig er stuðst við yfirlitsskýrslu um sjóvarnir sem var fyrst birt 1995, var svo endurskoðuð 1998 og aftur nú í ár á vegum Siglingastofnunar Íslands í september árið 2000. Hverju sveitarfélagi sem nefnt er í yfirlitsskýrslunni hefur verið sendur sá hluti hennar sem fjallar um það.

Sjóvarnaáætlunin var unnin í samráði við hafnaráð og lauk þeirri vinnu með umfjöllun á fundi 1. nóvember síðastliðinn.

Framkvæmdum var raðað í forgangsröð miðað við tiltekna forgangsflokka, A, B, og C. A-framkvæmdum er lokið og flestum B-framkvæmdum. Því eru í þessari áætlun aðallega B--C-framkvæmdir og C-framkvæmdir.

Heildarkostnaður við framkvæmdir í flokki C og ofar er áætlaður um 333 millj. kr. Miðast framkvæmdaáætlun fyrir árin 2001--2004 við að ljúka þessum framkvæmdum. Að auki er í yfirlitsskýrslunni fjallað um verkefni sem eru til athugunar og ná ekki flokkun. Kostnaður við verkefnin sem ekki komust á áætlunina er áætlaður um 110 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði 7/8 hluta kostnaðar en sveitarfélög og viðkomandi landeigendur sem hagræði hafa af sjóvörnum á landi sínu greiði 1/8 hluta. Hér er um að ræða mikilvæga breytingu frá því sem verið hefur þar sem ríkissjóður hefur í flestum tilvikum staðið undir öllum kostnaði við sjóvarnir eins og áður hefur komið fram. Með því er sveitarstjórn eða landeigendur gerðir ábyrgir fyrir hluta framkvæmdarinnar og hafa því meiri rétt til að hafa áhrif á undirbúning og nauðsynlegar áætlanir.

[25:30]

Leggja verður áherslu á að sjóvarnaverkefnum verður ekki lokið með þessum áætluðu framkvæmdum. Töluvert er af sjóvörnum 15--20 ára og eldri og þarfnast þær styrkingar sem ekki er gert ráð fyrir hér. (Gripið fram í: Hverjar eru þær helstar?) Svo er á hitt að líta að meira en 10 ár eru frá síðasta stórflóði suðvestanlands en 5--6 ár á Norðurlandi og Vestfjörðum.

Umræddar framkvæmdir eru einkum og sér í lagi við suðurströndina, svo að frammíkalli sér svarað.

Nýtt stórflóð mundi skapa nýja framkvæmdaþörf og er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því.

Búast má við stórflóðum á 10--20 ára fresti, sé tekið mið af reynslu okkar. Stórtjón hafa orðið á síðustu árum af völdum sjávarflóða í ofviðrum beggja vegna Atlantshafsins. Sumir vísindamenn telja að tíðni stórflóða hafi aukist m.a. af völdum veðurfarsbreytinga, þ.e. dýpri lægða og hærri aldna. Mælst hefur aukið landbrot síðustu ár í nágrannalöndum okkar og einnig hérlendis.

Þá eru kenningar um hækkun sjávarborðs af völdum hlýnandi loftslags samfara svonefndum gróðurhúsaáhrifum. Nú er í gangi alþjóðlegt samstarf á vegum Sameinuðu þjóðanna um reglusetningu og aðgerðir til að bregðast við þeim vanda sem því kann að vera samfara.

Athygli hefur vakið að meiri hlutinn af landeyðingu á austurströnd Bandaríkjanna er talinn af mannavöldum, stafa af mannvirkjum við ströndina, einkum af hafnargerð og varnargörðum innsiglinga en einnig af sjóvörnum. Þeir sem bera tjón af því eru jafnvel næstu nágrannar á viðkomandi strönd sem njóta ekki lengur sandburðar með hafstraumi. Hér er því á margt að líta.

Áætlaður heildarkostnaður á hvert ár í sjóvarnaáætlun 2001--2004 er rúmlega 80 millj. kr. Þar er hlutur ríkisins 7/8 eins og fyrr greinir. Að meðtöldu óskiptu fé er áætluð fjárveiting ríkissjóðs 73,8 millj. kr. á árinu 2001 og 2002 en 78,2 millj. kr. hvort ár 2003 og 2004.

Herra forseti. Ég legg til að þáltill. þessari verði vísað til hv. samgn. og til síðari umræðu að lokinni þessari umræðu.