Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:51:56 (2811)

2000-12-06 13:51:56# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það vekur vonbrigði að við Íslendingar skulum ævinlega læsast í sveitamennskuna og segja að við séum bestir á öllum sviðum, að ekki skuli vera hægt að ræða þessi mál út frá stöðunni eins og hún er í dag. Við vitum að við stöndum illa vegna þess að flotinn okkar notar mikla orku og bílarnir einnig. Við skulum sleppa iðnaðinum.

Síðan við hófum veiðar og vinnslu úti á sjó þá hefur kúrfan stigið til himins hvað varðar olíunotkun. Við treystum á dísilolíu og göngum fyrir henni. Auðvitað á að skoða þessi mál. Þetta eru mál sem við getum fært til betri vegar með öðruvísi aðferðum við fiskveiðar og vinnslu. Það er forheimska að nýta sér ekki þá möguleika og finna leiðir til að færa þessi mál til betri vegar. Af hverju ekki? Auðvitað eigum við að gera það. Það eru mörg rök fyrir því og hægt að halda um það langar ræður.

Tökum bílaflotann. Með stjórnvaldsaðgerðum ýtum við undir einkabílisma. Með stjórnvaldsaðgerðum hvetjum við fólk til þess að keyra stóra bíla sem brenna meira eldsneyti. Stjórnvöld hvetja t.d. ekki til almenningssamgangna. Almenningssamgöngukerfið í landinu er nánast í rúst. Allt hefur verið byggt á einkabílisma. Almenningssamgöngur í bæjum og þéttbýlisstöðum eru heldur ekki góðar. Auðvitað eigum við að einhenda okkur í frjóa umræðu um þetta í stað þess að klifa á því að við séum best. Við vitum að við stöndum vel vegna þess að við framleiðum 70% af orku okkar á vistvænan hátt. Auðvitað erum við stolt af því en við eigum að gera betur þar sem við getum það. Við getum það í útgerðinni, varðandi bílana og í iðnaði.