Manneldis- og neyslustefna

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:18:24 (2847)

2000-12-06 15:18:24# 126. lþ. 42.4 fundur 279. mál: #A manneldis- og neyslustefna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Því ber að fagna að í undirbúningi er að gera téða neyslukönnun. Ég tek auðvitað undir það að neyslukönnun sú sem um ræðir er grundvöllur fyrir þá manneldis- og neyslustefnu sem móta verður í framhaldinu. Slík könnun var gerð fyrir tíu árum, árið 1990 og neyslustefnan síðustu tíu ár byggir á þeirri könnun.

Nú heyrir maður, herra forseti, á máli hæstv. ráðherra að neyslukönnun af þessu tagi kosti 20 millj. Við heyrum líka að á síðasta ári voru settar 3 millj. í undirbúning og á næsta ári verði settar aðrar 3 millj. í verkefnið. Nú spyr ég, herra forseti: Hvenær koma hinar 14 millj. sem á vantar? Ég gagnrýni stjórnvöld fyrir það, þegar við erum með fyrirmæli í samþykktum þingsins um að eitthvað skuli framkvæmt á ákveðinn máta, að þá veikja stjórnvöld gjarnan slagkraft viðkomandi átaks með því að mjatla fé í verkefnið þannig að féð nýtist illa. Ég hef áhyggjur af því að þessari könnun verði annaðhvort hleypt af stokkunum hálfkaraðri, þannig að hún verði hvorki fugl né fiskur og þannig útleikin að ekki verði hægt að byggja á henni manneldis- og neyslustefnu, eða að það verði hreinlega ekki farið út í hana. Mér þykir það alvarlegt, herra forseti, að svona skuli haldið á málum enn og aftur þegar kemur að verkefnum sem kosta umtalsvert fé eins og hér um ræðir. Forsendan fyrir manneldis- og neyslustefnu í íslensku samfélagi er þessi könnun.

Ég tek undir orð hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur varðandi það að hvetja þurfi til umræðu um hvort verðlag geti stýrt neysluvenjum fólks. Ég ítreka spurningar mínar til ráðherrans þess efnis.