Málefni aldraðra

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 17:27:12 (2961)

2000-12-07 17:27:12# 126. lþ. 43.10 fundur 317. mál: #A málefni aldraðra# (Framkvæmdasjóður aldraðra) frv. 172/2000, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Í frv. er gert ráð fyrir að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra verði hækkað úr 4.065 kr. í 4.578 kr. eða um 513 kr. á ársgrundvelli.

Úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru m.a. veittir styrkir til bygginga stofnana fyrir aldraða og meiri háttar viðhalds og breytinga á húsnæði fyrir aldraða. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra stjórnar sjóðnum og gerir árlega tillögu til heilbr.- og trmrh. um úthlutun úr sjóðnum.

Framkvæmdasjóður aldraðra fær tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þeir sem greiða gjald eru einstaklingar á aldrinum 16--69 ára. Undanþegin gjaldinu eru börn innan 16 ára aldurs og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa lágmarkstekjur. Jafnframt skulu skattstjórar fella gjaldið niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum undir 70 ára aldri sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hefur ekki breyst frá því 1. janúar 1997 en þá var það hækkað með lögum nr. 140/1996, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997. Vegna hækkunar byggingarkostnaðar að undanförnu er við útreikning á gjaldinu miðað við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar frá árinu 1997.

Virðulegi forseti. Ég tel brýnt að frv. þetta hljóti afgreiðslu á haustþingi þannig að það fylgi fjárlagafrv. og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.