Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 18:49:49 (2977)

2000-12-07 18:49:49# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[18:49]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju með að þessi heildarstefnumótun, heilbrigðisáætlun, skuli komin fram. Það er mikilvægt að setja sér slík markmið þó að manni fixnnist stundum, þegar maður fer yfir svo almennar áætlanir, að þær séu haldlitlar. Engu að síður tel ég mjög mikilvægt að þær séu til. Það er mjög mikilvægt að setja sér markmið þó að ljóst sé að þau náist ekki öll. Í áætlun á borð við þessa á stefnumótunin að koma fram og meginþættirnir í heilbrigðispólitíkinni. Þess vegna er svo mikilvægt að hún sé til staðar, að menn hafi hugsað um hvernig þeir ætli að reka heilbrigðiskerfið á næstu árum og horfi svolítið fram á veginn í þeim efnum í stað þess að bregðast aðeins við þeim vandamálum og verkefnum sem upp koma hverju sinni.

Almennt sýnist mér þessi áætlun nokkuð góð. Á köflum eru sett fram nokkuð háleit markmið. Ég ætla svo sem ekki að fara í þau öll hér en mig langar að fara aðeins í 4. kafla B-hluta áætlunarinnar, Markmið og forsendur. Mér þótti hann einna áhugaverðastur. Þar er m.a. fjallað um forgangsröðun og markmiðin sem menn setja sér með heilbrigðisáætlun. Í kaflanum er vísað til 1. gr. laganna um heilbrigisþjónustu. Ég tel mikilvægt að hafa hana í huga við alla þessa umræðu en hún hljóðar svo:

,,Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.``

Þessi grein er dregin fram í heilbrigðisáætluninni og mjög mikilvægt er að hafa í huga að taka verður mið af því við framkvæmd þessara markmiða að bilið milli fjárhagslegrar og tæknilegrar getu heilbrigðisþjónustunnar eykst sífellt. Inn á það er komið í heilbrigðisáætluninni, með leyfi forseta:

,,Það felur í sér að ekki er alltaf mögulegt að fullnægja öllum þörfum eða óskum um aukna þjónustu. Fjármagn, mannafli, tími, aðstaða eða tæki munu einfaldlega ekki nægja til þess að verða við allri eftirspurn. Á næstu árum verða heilbrigðisstofnanir því að öllum líkindum að forgangsraða viðfangsefnum skipulegar en hingað til og reyna að nýta fjármuni betur.

Heilbrigðisáætlunin byggist á reglum um forgangsröðun sem byggðar eru á tillögum nefndar sem falið var að meta hvernig unnt væri að standa að forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisráðherra samþykkti þessar tillögur og hefur falið ráðuneytinu og öðrum aðilum innan heilbrigðiskerfisins að framkvæma þær í skipulegum áföngum. Forgangsröðunin nær jafnt til siðfræðilegra þátta og megináherslna heilbrigðisþjónustunnar sem og skipulags og stefnumörkunar.``

Síðan eru raktar þessar reglur um forgangsröðun. Segja má að í þeim orðum sem ég las upp úr heilbrigðisáætlun felist kannski rót vandans í rekstri heilbrigðiskerfisins. Við höfum háleit markmið og viljum veita góða þjónustu en fjármagnið er takmarkað og bilið milli fjárhagslegrar og tæknilegrar getu heilbrigðisþjónustunnar eykst sífellt. Tæknin verður stöðugt betri. Það er mögulegt að gera fleira en það kostar meiri og meiri peninga. Við þurfum einhvers staðar að draga strik við það hve mikið fjármagn við erum tilbúin að veita til heilbrigðiskerfisins. Jafnframt þarf þá að svara því hversu gott við viljum hafa það.

Ég held að það sé gott að hafa þessi meginmarkmið í huga þegar við fjöllum um rekstrarfyrirkomulagið í heilbrigðisþjónustunni. Það kom til tals fyrr í dag og m.a. hefur verið í umræðunni í þjóðfélaginu upp á síðkastið, spurningin um hvort einkavæða eigi meira í heilbrigðiskerfinu. Þá koma þessar meginspurningar upp í hugann: Mundum við veita betri þjónustu með því? Mundi einkavæðing draga úr kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins eða auka hann? Værum við, með því að auka einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, að nýta betur þá aðstöðu sem fyrir er eða mundum við nýta hana enn verr? Þetta eru grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga þegar rætt er um rekstrarfyrirkomulag í heilbrigðisþjónustu.

Mér þykir þessi kafli um markmið og forsendur mjög góð grundvallarlesning fyrir þá sem vilja velta heilbrigðismálum fyrir sér, sérstaklega í ljósi þess --- ég er a.m.k. þeirrar skoðunar --- að almenn viðmiðun um lögmál framboðs og eftirspurnar eiga ekki við í heilbrigðiskerfinu, m.a. af þeim orsökum sem hér hafa verið raktar. Þetta er samfélagsleg þjónusta sem okkur er skylt að veita að ákveðnu marki, hvort sem hún er arðbær eða ekki og hversu dýr sem hún kann að verða.

Í þessum kafla eru einnig raktir siðfræðilegir þættir málsins. Þar segir m.a.:

,,Heilbrigðisþjónustan á að vera réttlát.

Markmið:

1. Heilbrigðisþjónustan skal vera réttlát, byggð á sam\-ábyrgð þegnanna og að mestu leyti kostuð af almannafé.

2. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu skal vera auðvelt og sem jafnast.

3. Þeir einstaklingar sem hafa mesta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu skulu ganga fyrir.``

Eigi þessi markmið að nást er ljóst að það stæðist t.d. ekki að leyfa mönnum að kaupa sig fram fyrir röðina á biðlistum, eins og maður hefur heyrt raddir um í samfélaginu. Margir hafa rökstutt þá skoðun með því að um leið sé hinum sem á eftir koma auðveldaður aðgangurinn vegna þess að þá geti sumir borgað fyrir sig sjálfir. Ég tel hins vegar að það yrði í andstöðu við öll þau grundvallarmarkmið sem við höfum sett okkur við rekstur heilbrigðiskerfisins.

Hér eru síðan raktar áherslur heilbrigðisþjónustunnar, hverjar þær eigi að vera. Það er líka fróðleg lesning. Þar segir að setja skuli reglur um biðlista, biðtíma og tilfærslu sjúklinga innan heilbrigðiskerfisins. Ég tel mikilvægt að til séu einhverjar reglur um þetta. Þannig væri um leið skilgreind sú þjónusta sem ríkið ætlar sér að veita. Við þekkjum öll umræðuna um að ábyrgð þeirra sem reka heilbrigðisstofnanir sé meiri en fjármagnið og þar þarf náttúrlega að leitast við að setja sér markmið með því að forgangsraða.

Ég vildi líka grípa aðeins niður í kaflann um samvinnu og samhæfingu innan heilbrigðisþjónustunnar, um að auka verði þá þætti. Í því samhengi vildi ég spyrja hæstv. heilbrrh. út í það sem fram kemur á bls. 31 og 32 í heilbrigðisáætluninni. Ég hef heyrt af því að mikil samvinna hafi verið á milli Norðurlandanna um þá samhæfingu sem fjallað er um í liðum C.2 og C.3. Ég vildi spyrja, þar sem ég hef líka heyrt að Ísland sé ekki þátttakandi í þeirri vinnu: Þekkir hæstv. heilbrrh. til þessarar vinnu á Norðurlöndunum? Ef svo er, hvernig stendur á því að við erum ekki aðilar að því verkefni?