Heilbrigðisáætlun til ársins 2010

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 19:24:00 (2982)

2000-12-07 19:24:00# 126. lþ. 43.11 fundur 276. mál: #A heilbrigðisáætlun til ársins 2010# þál., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[19:24]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir virðist geta svarað spurningum sem margir rannsakendur víða um veröld hafa ekki getað svarað, þ.e. varðandi það að einkarekstur leiði hvorki til minni útgjalda né hagræðingar. Þetta hefur verið skoðað mjög víða og ég hef undanfarið skoðað slíkar rannsóknir. Í þeim kemur m.a. fram að mjög erfitt er að meta áhrif breytinga á rekstrarformi í heilbrigðisþjónustu þar sem þjónustan tekur stöðugum breytingum og mjög erfitt að finna út hvaða þættir valda tilteknum breytingum.

Hins vegar hafa verið gerðar tilraunir í þessa veru. Ég skoðaði m.a. athugun sem var gerð á heilbrigðiskerfum í Svíþjóð, Nýja-Sjálandi og Bretlandi. Þar kom fram að framleiðni er aukin í heilbrigiskerfunum þó óljóst sé hvort hana megi rekja til skipulagsbreytinga. Það eru ekki til rannsóknir sem meta gæði þjónustunnar. Ljóst er að starfsemin hefur aukist innan heilbrigðiskerfanna en það er alþjóðlegt og ekki hægt að sjá hvort það kemur til vegna skipulagsbreytinga. Framboð á þjónustu er aukið en á hinn bóginn er erfitt að meta kostnaðinn. Allar breytingar í heilbrigðisþjónustu hafa ákveðinn kostnað í för með sér --- fleiri þætti hefði ég viljað nefna og ég geri það kannski á eftir --- en hins vegar hafa þær jákvæðu breytingar orðið að betri stýring er á fjármagninu sem er til ráðstöfunar. Stjórnendur hafa tekið upp nútímastjórnunarhætti sem gera það að verkum að fremur er hægt að beina fjármagninu þangað sem þörfin liggur.