Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:30:30 (3191)

2000-12-12 14:30:30# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:30]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Venjulega taka eigendur hlutabréfa ákvörðun um sameiningu eða yfirtöku fyrirtækja. Það er eðlilegur þáttur í eignarhaldi þeirra. Oft fá þeir stjórnir félaganna til að vinna fyrir sig að málinu en alls ekki alltaf. Þess eru jafnvel dæmi að stjórnir hlutafélaga frétti af samruna í fjölmiðlum.

Í lögum um viðskiptabanka er ákvæði um að bankaráðið fari með þetta hlutverk, þ.e. taki ákvörðun um samruna bankans við annað fyrirtæki sem ég tel eðlilegra að eigandi fari með. Það hlýtur að vera gömul arfleifð frá þeim tíma að bönkunum og útlánum þeirra var handstýrt af stjórnmálamönnum. Það er sem betur fer liðin tíð. Þetta ákvæði þyrfti að skoða.

Herra forseti. Þetta er rót þess vanda sem undanfarið hefur komið upp í samskiptum handhafa stærsta hluthafans, ríkisins, og bankaráðs Búnaðarbankans. Þau vandræði eru til þess að sigrast á þannig að sameinaður banki verði seldur sem fyrst. Ekki til að fjármagna viðskiptahallann eða til að bæta enn frekar stöðu ríkissjóðs, eins og haldið hefur verið fram, heldur til að sleppa dauðri hönd ríkisins af þessum hluta atvinnulífsins og stuðla að samkeppni neytendum til hagsbóta.

Óvíða er ríkið eins afgerandi í fjármálarekstri eins og hér á landi. Ef okkur tekst að selja þennan sameinaða banka, þá eigum við bara eftir að einkavæða Landssímann, Íbúðalánasjóð og raforkukerfið.

Herra forseti. Við allar slíkar hræringar er mjög mikilvægt að upplýsa starfsfólk eins fljótt og auðið er til að eyða óvissu. Einnig er mikilvægt að ferlið taki stuttan tíma til að ekki komi upp órói og óvissa. Því miður tekur sameining opinberra fyrirtækja af þessari stærð allt of langan tíma.