Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:50:36 (3200)

2000-12-12 14:50:36# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér væri ágætt að taka svolitla æfingu í umræðu um þetta mikilvæga mál en ég verð hins vegar að viðurkenna að ég er dálítið hissa á málflutningi hv. þm. Nú eru allir að tala sig upp í að vera á móti sameiningu bankanna. Ástæðurnar eru helst þær að ófaglega sé unnið að henni og ráðherra hafi orðið á mistök og svo er það ekki rökstutt frekar. Mér finnst þetta nánast broslegt, ég verð að viðurkenna það.

Kannski er broslegast af öllu þegar hv. þm. Sverrir Hermannsson, sem hefur talað með sameiningu bankanna fram til þessa, er farinn að tala harðast gegn þessari sameiningu. Hann vill að þingmenn hindri framgang málsins. Hver skyldi ástæða þess vera að hann hefur snúið blaðinu við? Jú, að viðskrh. skuli hafa kallað formann bankaráðs á sinn fund og beint til hans tilmælum. Það er nóg til að hv. þm. er orðinn algerlega á móti því að sameina bankana. Þetta er ekki sértaklega trúverðugt, það verð ég að segja.

Kannski er réttast að nota tímann, hæstv. forseti, sem ég hef hér til að vitna aðeins í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hann hélt á hv. Alþingi þegar til umfjöllunar var að breyta bönkunum í hlutafélög. Þá sagði hv. þm.:

,,Helstu rökin sem færð eru fram gegn því`` --- sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka --- ,,eru að það sé ekki viðráðanlegt vegna þess að þá verði of mikil fákeppni eða þessi aðili of stór í bankaviðskiptunum. En hverju eru menn þá að horfa fram hjá? Þeir eru þá að nota það sem rök fyrir því að afsala sér hlutum sem eru svo borðleggjandi hagstæðir íslenskum neytendum og íslensku atvinnulífi að ég kalla það mikið ábyrgðarleysi að nota jafneinfaldan og raunverulega lítt rökstuddan hlut, eins og það að það geti þá orkað tvímælis hvort það sé ekki óhagstætt út frá samkeppnisforsendum, til að henda því út af borðinu.``

Þetta sagði hv. þm. fyrir örfáum árum.