Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 15:46:51 (3206)

2000-12-12 15:46:51# 126. lþ. 46.6 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til þess að lengja umræðuna miklu meira. Ég vil vísa til ummæla og ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar við 2. umr. þegar hann fór yfir málið. Eins vil ég taka undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur frá því hér áðan.

Þetta varðar lækkun á tekjuskatti ríkisins um 0,33% ...

(Forseti (GÁS): Það er óþarflega mikill kliður í salnum. Forseti vill biðja þá hv. þm. sem ætla ekki að vera viðstaddir umræðuna, taka þátt í henni eða leggja við hlustir að eiga einkasamtöl sín annars staðar.)

Herra forseti. Þetta fer saman við heimild sveitarfélaganna til hækkunar útsvarsálagningar. Þarna munar 0,33% sem sveitarfélögin geta hækkað útsvarstekjur sínar umfram þessa lækkun þannig að í heildina er þetta skattahækkun fyrir einstaklinga.

Eins og hér hefur komið fram mun þetta bæta allt að 2.000 manns við þann lista manna sem munu greiða skatt en hafa til þessa verið undir skattleysismörkum.

Hér hefur verið vísað til umsagna ýmissa stéttarfélaga og flest þeirra vísa til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá því í mars um lagabreytingar, en samkvæmt yfirlýsingunni koma í framhaldi af þessum skattalagabreytingum lagabreytingar í kjölfarið. Gert er ráð fyrir að skattleysismörk hækki samkvæmt lágmarksumsömdum launahækkunum sem þá hafði verið gengið frá. Það er algert grundvallaratriði að skatthlutfall verði ekki hækkað án samsvarandi breytinga á persónuafslætti til að tryggja að skattleysismörk lækki ekki vegna breytinga á álagningarhlutfalli.

Hægt væri að flytja enn lengri ræðu og fara yfir þessi mál enn og aftur en þetta er meginatriðið og því er búið að taka á dagskrá brtt. á þskj. 513, um tekjuskatt og eignarskatt, sem Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson og Rannveig Guðmundsdóttir eru flytjendur að en þar eru lagðar til breytingar á persónuafslættinum. Ég tel því mikilvægt að brtt. fylgi þessu frv. til laga og verði óaðskiljanlegur hluti af þessum breytingum.