Námsmatsstofnun

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 18:00:33 (3230)

2000-12-12 18:00:33# 126. lþ. 46.12 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv. 168/2000, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[18:00]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. ræðumönnum sem tekið hafa þátt í umræðu um málið sem hér er á dagskrá fyrir málefnalega umræðu. Það er einkanlega eitt atriði sem ég vildi bregðast við í máli þeirra, þ.e. rannsóknahlutverk hinnar nýju stofnunar, Námsmatsstofnunar.

Í gildandi lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála er þeirri stofnun ætlað víðtækara rannsóknahlutverk heldur en Námsmatsstofnun er ætlað. Ég tek undir að það er alveg ljóst að það er verið að þrengja hlutverk stofnunarinnar miðað við gildandi lög um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Á það ber hins vegar að líta að það er mjög skýrt kveðið á um rannsóknahlutverk Námsmatsstofnunar í d-lið 2. gr. frv. Þar segir: ,, ... vinna að námsmatsrannsóknum og samanburðarrannsóknum við árangur skólastarfs í öðrum löndum.``

Það kom mjög glöggt fram við umfjöllun málsins með forstöðumanni Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála að á þessi atriði lagði hann sérstaka áherslu, þá einkanlega samanburðarrannsóknir við árangur skólastarfs í öðrum löndum.

Við verðum líka að horfast í augu við að ætlunin er að laga þetta nýja hlutverk og hina nýju stofnun að núverandi framkvæmd gildandi laga um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Það er nefnt í grg. með frv. að háskólarnir, t.d. Háskóli Íslands Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskólinn, sinna allir rannsóknum á sviði uppeldis- og menntamála. Það er sérstaklega tekið fram í grg. að því sé óþarfi að á vegum ríkisins sé rekin sérstök stofnun á þessu sviði. Hins vegar er alveg ljóst að hin nýja stofnun mun hafa rannsóknahlutverk og það tel ég mjög mikilvægt.

Ég vil líka taka það sérstaklega fram, vegna þess að það var nefnt hér og dregið í efa að áhugi væri á því að styrkja rannsóknir við háskólana í landinu, að í grg. með fjárlagafrv. er sérstaklega fjallað um gerð reglna um framlög til rannsókna í háskólum. Í framhaldinu verður gengið til árangurssamninga við skólana á því sviði. Af hálfu menntmrn. hefur verið sett fram það markmið að ríkisvaldið leggi áherslu á að efla grunnrannsóknir og menntun ungra vísindamanna. Tekið verði mið af því í samningum við háskóla og við ákvörðun um fjárveitingar til sjóða Rannsóknarráðs Íslands. Gert er ráð fyrir að allir háskólar fái grunnframlag sem byggist á fjölda nemenda í fullu námi. Að öðru leyti ráðist framlagið af rannsóknavirkni, fjölda nemenda sem útskrifast úr rannsóknanámi og árangri skólanna í samkeppni um fé úr erlendum og innlendum rannsóknasjóðum. Miðað er við að skólarnir setji sér skýr markmið á sviði rannsókna, fylgist með eigin rannsóknastarfsemi með því að nota innra gæðamatskerfi og að menntmrn. láti gera úttektir á starfseminni, m.a. til að kanna hvort hún stenst alþjóðlegar kröfur.

Ég vildi sérstaklega taka þetta fram því að mér fannst vera tilefni til þess eftir þá umræðu sem hér hefur orðið í dag.