Lokafjárlög 1998

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 13:48:07 (3278)

2000-12-13 13:48:07# 126. lþ. 47.17 fundur 260. mál: #A lokafjárlög 1998# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það er kannski ekki ástæða til að lengja umræðu um frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1998. Ég vil þó byrja á að taka undir með hæstv. fjmrh. um þær væntingar að við getum komið þessum málum í betri farveg en verið hefur. Má ef til vill finna afsökun í því að uppgjörshættir og vinnubrögð eru að breytast. Þess vegna hafi þetta tekið nokkurn tíma. Ég verð að geta þess að þetta er í þriðja skiptið sem frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1998 er lagt fram. Það sem ég vil helst koma til skila hér er það sama og ég hef sagt undanfarin ár í umræðum um fjárlög, að þessir hlutir þurfa að vera í lagi, svo mikill kerfiskarl er ég að ég vil að þetta gangi alveg eftir réttum farvegi. Ég mótmæli því, eins og ég gerði við umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar, að búið sé að samþykkja ríkisreikning áður en frv. til lokafjárlaga er afgreitt. Ég er fyrst og fremst að árétta þá hluti.

Virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til að rifja upp það sem ég sagði í umræðu um fjárlög fyrir árið 1998, sem sagt árið 1997. Þótt undarlegt megi teljast hefur skoðun mín varðandi ýmislegt í ríkiskerfinu lítið breyst. Það lýtur að því að misjafnt aðgengi manna er að ýmsum stofnunum, sjóðum og fyrirgreiðslum. Þess vegna hafði ég þau orð yfir og ætla að gera það aftur að ástæða er til að skoða það sem ég kalla ýmsa risnupósta þjóðfélagsins. Ég vil segja að þar geta þeir sem betur mega sín stungið rananum í risnuhunangið og nánast sogið óslitið til sín. Þeim finnst það meira að segja eðlilegt, herra forseti, og skilja ekki að verið sé að fetta fingur út í slíkt, hvort sem það varðar bílafríðindi, ferðafríðindi, laxveiðifríðindi, dagpeningafríðindi, veislufríðindi, gjafafríðindi eða annað. Ástæða er til að taka á slíkum málum, það var ástæða til þess árið 1997, og það er það enn þá. Við eigum að gera þetta þannig að allir hlutir, allt sem fram fer hjá hinu opinbera á að vera gagnsætt, nákvæmlega eins og þegar menn fóru í það að flytja hér frv. í skyndingu um að gera laun forsetans sýnileg, þá tel ég að gera eigi laun allra starfsmanna ríkisins sýnileg. Ég er sannfærður um að svo er ekki og þess vegna eru þau orð viðhöfð um að stinga rana í risnupotta.

Það hefur komið fram að svo mikill lúxus er hjá ákveðnum hluta þjóðarinnar að ástæða er til að gera athugasemd við þá hluti. Ég geri alvarlega athugasemd við það að ýmsir þjóðfélagshópar skuli vera þannig settir að þeir geti útdeilt sjálfum sér því að geta stungið rana sínum í risnupotta sem við þeim blasa. Þessi orð voru sögð við umræðu um fjárlög fyrir árið 1998, þau eiga við enn.

Einnig voru sögð hér orð sem ég vil, með leyfi virðulegs forseta, vitna í. Ræðumaður og frsm. minni hluta fjárln. var þá hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Hann sagði:

,,Við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðarbúskapnum gegna aðgerðir stjórnvalda lykilhlutverki í að halda aftur af þeirri miklu aukningu sem orðið hefur í eftirspurn og almennum umsvifum efnahagslífsins. Aðhald í útgjöldum ríkissjóðs er grundvallarforsenda þess að árangur náist í að minnka viðskiptahallann og þar með skuldasöfnun þjóðarbúsins.``

Virðulegur forseti. Þessi orð voru sögð 1997 við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1998 af hv. þm. og frsm. minni hluta þá, Kristni H. Gunnarssyni. Það er svolítið merkilegt að þessi aðvörunarorð eru í fullu gildi og hafa gengið fyrir öll fjárlög fram til þessa dags og við í minni hlutanum höfum nýviðhaft ámóta aðvörunarorð.

Í nál. minni hlutans fyrir árið 2001 er sagt: ,,Ríkisfjármálastefna þarf að vera í takt við peningamálastefnu svo að árangur náist.`` Nánast nákvæmlega sömu orð viðhafði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson í framsöguræðu sinni við afgreiðslu fjárlaganna fyrir 1998.

Ástæða er til að minna á þessi orð, herra forseti, vegna þess að þau eru í fullu gildi og ég veit að það er enginn ágreiningur hjá mér og hæstv. fjmrh. um að þetta eru þau ráð sem ríkið á til að sporna við því efnahagsástandi sem hefur því miður örlað á og er miður fyrir okkur.

Ég gat ekki annað, virðulegur forseti, en nýtt þetta tækifæri varðandi það þingmál sem nú liggur fyrir og nefnt þessar hugleiðingar mínar. Enginn ágreiningur er hjá okkur hæstv. fjmrh. um afgreiðslu á þessu máli. Það er núna í mjög góðum búningi og er miklu betra en það var áður, leiðrétt hefur verið það sem að var fundið þannig að ég vonast til þess að fjárln. afgreiði þetta mál frá sér á fundi hið fyrsta.

Ég fagna einnig þeim orðum að frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1999 skuli vera væntanlegt og minni hlutinn mun gera allt til að greiða fyrir þessum málum hið fyrsta. Ég tel virkilega ástæðu til þess og þannig að við komum þessum málum í þann farveg að lokafjárlög séu afgreidd á hverju ári áður en ríkisreikningur er samþykktur.

Ég minni á að ríkisendurskoðandi gerði athugasemd og fyrirvara við afgreiðslu á ríkisreikningi fyrir árið 1998 vegna þess að frv. til lokafjárlaga var ekki afgreitt. Þetta er prinsippmál sem menn þurfa að temja sér í vinnu. Í orðum mínum felst engin ásökun á hendur hæstv. fjmrh. vegna þessa og ég fagna þeim orðum sem hann lét falla um að þetta væri að breytast og þetta væri að komast í það lag sem menn hefðu sett sér með setningu fjárreiðulaga fyrir þremur árum.