Lokafjárlög 1998

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 13:56:53 (3279)

2000-12-13 13:56:53# 126. lþ. 47.17 fundur 260. mál: #A lokafjárlög 1998# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ferli fjárreiða ríkissjóðs er að fyrst er lagt fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 á hausti 1997, síðan vinnur Alþingi þetta frv. og breytir því og samþykkir fjárlög fyrir 1998 í lok ársins 1997, svo eru sett fjáraukalög fyrir 1998 á árinu 1998 þar sem menn sjá betur hvert stefnir og svo að lokum eru sett lokafjárlög og síðan kemur ríkisreikningur. Þetta er ferlið. Ég hefði gaman af að sjá helstu niðurstöður úr öllu þessu ferli, ég hef ekki rekist á það í frv., til þess að átta mig á því hversu vel hafi tekist til við spá um fjárlög 1998. Fjárlög eru aldrei annað en spá og áætlun, áætlunargerð sem byggir á ákveðnum forsendum. Því væri gaman að sjá hvernig til hefur tekist því að lokafjárlög eru lokahnykkurinn í slíku ferli.

Ég er mjög ánægður með þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að koma með lokafjárlög 1999 nú fyrir jól og enn betra er að fá ríkisreikning og lokafjárlög fyrir árið 2000 næsta haust, en markmiðið ætti náttúrlega að vera að koma með hvort tveggja 1. febrúar árið á eftir.

Það eru stórfyrirtæki í heiminum, eins og IBM að mér skilst, sem koma með ársreikning 15. janúar. Þetta er náttúrlega ekkert annað en agi í bókhaldi, agi í færslu hjá ríkinu og yrði mjög til bóta ef allar ríkisstofnanir og ríkið sjálf væri komið með allt bókhald sitt, segjum 1. febrúar. Það yrði markmið sem menn settu sér og ég vil skora á hæstv. fjmrh. að stefna að því. Þetta er háleitt markmið, en ég held nefnilega að það gefi ákveðinn aga við að fara að fjárlögum hjá ríkisstofnunum, gefi ákveðinn aga í því að reka fyrirtækin vel og hafa upplýsingar til reiðu.

Þannig er að ég lít á hlutverk bókhalds mjög alvarlegum augum. Bókhaldið gegnir í rekstri fyrirtækis svipuðu hlutverki og taugakerfið í mannslíkamanum, það segir manninum hvar eitthvað er að. Ef maður brennir sig á hendinni, þá fær maður upplýsingar um það strax og maður bregst við með því að kippa hendinni að sér. Sama á bókhaldið að gera. Ef einhver deild eða einhver liður er að fara úr böndunum þá eiga menn að vita það strax og geta kippt að sér hendinni og gert ráðstafanir. Þetta er hlutverk bókhalds og það er því miður allt of lítils metið í atvinnulífinu og í opinberum rekstri. Ég skora á hæstv. fjmrh. að stefna að því að gera bókhaldið enn virkara og skilvirkara en menn hafa þegar náð árangri í.